Áætlað var í leiðara Vísis fyrir viku, að tvær stórar álverksmiðjur þyrfti til að afla gjaldeyris fyrir viðbótarinnflutningi á matvörum, ef landbúnaður væri ekki til á Íslandi. En í rauninni er þetta ofáætlað, því verulegur gjaldeyrir mundi sparast, ef ekki væru fluttar inn rekstrarvörur til landbúnaðarins. Raunverulega leiðir innlendi landbúnaðurinn aðeins af sér sáralítinn gjaldeyrissparnað.
Þessi dapurlega staðreynd bætist við ýmsar aðrar dapurlegar staðreyndir, sem raktar voru í leiðara Vísis fyrir viku. Samkvæmt nýja fjárlagafrumvarpinu á að verja 4.989.798.000 krónum á næsta ári til niðurgreiðslna, uppbóta og annarra beinna framlaga til landbúnaðarins eða um það bil einni milljón króna á hvern bónda í landinu. Þar á ofan á að verja 809.966.000 krónum til landbúnaðarins á annan hátt en sem bein framlög.
Þrátt fyrir þetta eru fæstar innlendar landbúnaðarafurðir samkeppnishæfar við hliðstæðar innfluttar vörur, ef leyfðar væru. Þetta gildir um margar niðurgreiðslur afurðanna og líklega alla aðra matvöru sem landbúnaðurinn framleiðir. Áætla má, að þessi verðmunur innlendra og innfluttra landbúnaðarvara nemi samtals nokkur hundruð milljónum króna á ári.
Ef 4.989.798.000 krónur, 800.966.000 krónur og þessi síðasta óákveðna tala eru lagðar saman, kemur í ljós að skattgreiðendur og neytendur verða á næsta ári að borga um það bil 6,5 milljarða króna fyrir að halda uppi landbúnaði í landinu og gera þjóðinni kleift að vera sjálfri sér nóg í kjötvörum og mjólkurvörum.
Tölurnar tala sínu máli, þótt sumir reki upp hneykslunarvein, þegar þær eru nefndar. Þær þvinga þjóðina til að hugsa sitt ráð og íhuga, hvort fjármögnun landbúnaðarins sé komin út í vonlausar ógöngur. Neytendur og skattgreiðendur vilja ræða þetta mál í fúlustu alvöru., þótt æpt sé að þeim.
Bændurnir eru líka fórnardýr kerfisins. Þeir hafa lágar tekjur, vinna langan vinnudag og eru margir hverjir neyddir til að halda uppi búskap á örreytisjörðum, því að þeir hafa ekki í annað hús að venda. Þeim er ekki veittur neinn umtalsverður stuðningur til að bregða búi, þótt þeir gjarnan vildu.
Það er ekki einu sinni svo gott, að bóndinn hafi einnar milljón króna ríkisframlagið til ráðstöfunar. Meðaltekjur bónda eru vart yfir 750.000 krónum. Sú upphæð spannar bæði verðmætasköpun hans og ríkisframlagið, svo að milljónin hlýtur að rýrna verulega á leiðinni til bóndans.
Við skulum ímynda okkur eitt andartak, að landbúnaður hafi verið lagður niður hér á landi. Tölurnar sýna, að neytendur hagnast á því í formi lækkaðs vöruverðs. Þær sýna líka, að gjaldeyriskostnaðurinn er ekki umtalsverður. Síðast en ekki sízt sýna þær, að tekjur bóndans gætu aukizt úr 750.000 í eina milljón króna, ef hann fengi ríkisframlagið beint og þyrfti ekki að framleiða upp í það.
Við getum því verið sammála um, að eitthvað meira en lítið sé rotið í kerfinu. Vitleysan er komin á slíkt stig, að nauðsynlegt er, að færustu mönnum verði falið að kanna hana og íhuga, hvort ekki sé unnt að breyta einhverju.
Jónas Kristjánsson
Vísir