Miklu verri en 1961

Greinar

Nýi landhelgissamningurinn við Breta er að því leyti svipaður og samningurinn frá 1961, að alþjóðadómstóllinn í Haag hefur sömu möguleika og áður til að hafa afskipti af málinu. Menn geta hér eftir sem hingað til deilt um gagnið af dómstólnum, en sá skoðanamunur snertir ekki samanburðinn á þessum tveimur samningum.

Nýi samningurinn er miklu verri en samningurinn frá 1961 að því leyti að í honum felst engin viðurkenning á hinni nýju landhelgi. Árið 1961 féllust Bretar á nýju landhelgina og fengu undanþágur í nokkur ár. Að þeim tíma liðnum gilti nýja landhelgin að fullu. Nú er samið til tveggja ára án þess að nýja landhelgin taki gildi að tímabilinu loknu. Þá mun gamla landhelgin gilda áfram að mati Breta.

Nýi samningurinn er miklu verri en samningurinn frá 1961 að því leyti, að Íslendingar fá ekki óskoraða lögsögu yfir hinu umdeilda hafsvæði. Árið 1961 féllust Bretar á, að Íslendingar einir hefðu lögsögu yfir framkvæmd samningsins. Nú verða íslenzku varðskipin hins vegar að kalla á brezk eftirlitsskip til staðfestingar á mælingum, áður en unnt er að strika viðkomandi landhelgisbrjót út af listanum yfir veiðileyfin. Og ekki er lengur hægt að gera afla og veiðafæri upptæk og dæma skipstjóra togaranna í háar fjársektir.

Nýi samningurinn er miklu verri en samningurinn frá1961 að því leyti, að í honum felst engin yfirlýsing Íslendinga um áframhaldandi stækkun landhelginnar, í þetta sinn út í 200 mílur. Árið1961 lýstu Íslendingar yfir því í samningnum við Breta, að þeir hygðust áfram vinna að frekari útfærslu landhelginnar, og var því ekki mótmælt af hálfu Breta í samningnum.

Nýi samningurinn er miklu verri en samningurinn frá 1961 að því leyti, að hólfaskiptingin er mun verri en þá. Þá voru hólfin miðuð við friðun fyrir ágangi brezkra togara á þeim tímum ársins, er mestu máli skiptu. Nú eru hólfin hins vegar ekki friðuð á mestu aflatímunum, heldur sumpart á tímum, er engum brezkum togaraskipstjóra dytti í hug að vera þar á veiðum.

Ef talsmenn Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins hafa til þessa getað kallað samninginn frá 1961 “landráð”, hvað gætu þeir kallað nýja samninginn sinn? Íslenzka tungu skortir líklega orð yfir það. En það er alténd ljóst af samanburði samninganna, að sé nýi samningurinn þolanlegur, þá var samningurinn frá 1961 verulega góður.

Þar með eru ekki allir gallar nýja samningsins upptaldir. Verst er, að hann getur tafið 200 mílna landhelgina í eitt ár. Þar að auki liggur ekki fyrir nein vitneskja um, hvort Efnahagsbandalag Evrópu telur hann fullnægjandi lausn, þannig að lækka megi tolla af íslenzkum sjávarafurðum.

Og loks er mjög óljóst í samningnum, hversu merkileg talan 130.000 tonn á ári er í raun og veru. Hennar er aðeins getið í formála. “Miðað við” um 130.000 tonn segir í íslenzka textanum, en “áætluð” 130.000 tonn í enska textanum. Hér er misræmi og þoka á ferðinni.

Ljóst er,að á alþingi er meirihluti þingmanna með hinum nýja samningi. Margir þeirra gera það af tryggð við samstöðuna í landhelgismálinu, þótt þeir séu í hjarta sínu andvígir flestum atriðum samningsins.

Jónas Kristjánsson

Vísir