Athyglisvert er, að minnkandi tök stjórnmálaflokka á hefðbundnum kjósendum sínum eru ekki lengur neitt einkamál Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. Í nýafstöðnum kosningum var mikil sveifla um land allt, einnig í strjálbýlum kjördæmum.
Þetta má mæla með því að leggja saman breytingar á hlutfallsfylgi þingflokkanna fjögurra í hverju kjördæmi fyrir sig og deila í þær með tveimur. Þá kemur í ljós, að sveiflan er frá 23% í Reykjavík niður í 11% í Norðurlandskjördæmi vestra.
Mestu breytingakjördæmin fyrir utan Reykjavík eru Reykjanes með 21% sveiflu og Suðurland og Austfirðir með 19% sveiflu í hvoru kjördæmi. Fyrir utan Norðurland vestra eru minnstu sveiflukjördæmin Norðurland eystra með 11% sveiflu og Vestfirðir með 13% sveiflu. Bil beggja fer svo Vesturland með 16% sveiflu.
Alþýðuflokkurinn náði mestum árangri á Reykjanesi. 16 prósentustiga aukningu. Síðan komu Reykjavik með 14 stig, Norðausturland með 13 stig, Vesturland með 12 stig og Suðurland með 11 stig. Minnstur var árangur flokksins á Austfjörðum, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, 5 prósentustig í hverju kjördæmi.
Alþýðubandalagið náði mestum árangri á Austfjörðum, 11 prósentustigum. Minnstur var árangur þess á Reykjanesi og Vesturlandi, 3 stig, og í Reykjavik 4 stig. Hin kjördæmin fóru bil beggja með 5-6 stig.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði mestu á Reykjanesi, 14 prósentustigum og næstmestu í Reykjavik og á Suðurlandi, 11 stigum. Skástur var árangur flokksins á Norðvesturlandi, þar sem tapið var 5 stig, svo á Vestfjörðum og Austfjörðum, 6 stiga tap í hvoru kjördæmi. Vesturland og Norðausturland fóru bil beggja með 7-8 stiga tap.
Framsóknarflokkurinn tapaði mestu á Austfjörðum, 16 prósentustigum, og næstmestu á Suðurlandi, 12 stigum. Minnst var tap flokksins á Norðvesturlandi, 5 stig, og á Reykjanesi, 7 stig. Í öðrum kjördæmum nam tap flokksins 8-9 prósentustigum.
Af hinni misjöfnu sveiflu flokkanna í samanburði við heildarsveifluna má ráða, að framboðin hafi verið misjafnlega sterk hjá flokkunum í einstökum kjördæmum.
Í Reykjavik virðist framboð Alþýðuflokksins hafa verið mun sterkara en framboð Alþýðubandalagsins, ef til vill vegna deilna um stöðu verkalýðsmanna og menntamanna á lista bandalagsins.
Það veikir þó þessa kenningu, að svipað varð uppi á teningnum á Reykjanesi. Þar er einnig athyglisvert, að framboð Framsóknarflokks hefur verið tiltölulega sterkt.
Á Vestfjörðum virðist framboð Alþýðubandalagsins hafa verið sterkara en Alþýðuflokksins, því að framboð Karvels hafði minni áhrif á útkomu bandalagsins.
Á Norðvesturlandi virðast stjórnarflokkarnir hafa verið með tiltölulega sterk framboð, en Alþýðuflokkurinn veikt. Á Austfjörðum virðist vera um að ræða persónulegan sigur Lúðvíks Jósepssonar á Framsóknarflokknum.
Á Suðurlandi virðast framboð stjórnarflokkanna hafa verið veik. Loks virðist útkoma flokkanna á Vesturlandi vera nokkuð nálægt landsmeðaltali.
Hugleiðingar sem þessar hljóta að vera til umræðu innan flokkanna, því að skynsamir menn hefja nýja kosningabaráttu þegar að lokinni annarri.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið