Mikil áhrif en takmörkuð

Greinar

Opinber skoðanaskipti manna um mikil áhrif óháðra fjölmiðla, einkum Dagblaðsins, á gang þjóðmála hafa verið svo umfangsmikil síðasta mánuðinn, að jafnvel Morgunblaðið er farið að taka þátt í þeim.

Í leiðaranum á miðvikudaginn viðurkenndi Morgunblaðið þessi áhrif og lýsti áhyggjum sínum vegna þeirra. Þar minnti blaðið hina óháðu fjölmiðla réttilega á, að þeir eigi að vera upplýsendur en ekki dómstólar.

Annað meginatriði óháðra fjölmiðla er einmitt upplýsingagildi þeirra. Til dæmis má nefna, að stjórnmálamenn fá ekki lengur að makka í friði, því að dagblöð segja daglega frá gangi mála þeirra.

Ein helzta breyting fjölmiðlunar á síðustu þremur árum er einmitt sú, að fréttamennskan er farin að spanna yfir bein og óbein stjórnmál eins og aðra þætti þjóðlífsins. Slík skrif eru ekki lengur einkaverkefni flokkskommissara.

Lítill vafi er á, að hin opna fréttamennska, sem spannar yfir fleiri svið og kafar dýpra en áður, er einn þeirra þátta, sem mest hafa breytt þjóðmálum á undanförnum árum. Almenningur hefur getað notfært sér upplýsingar hinnar opnu fréttamennsku.

Hitt meginatriði óháðra fjölmiðla eru hin opnu skoðanaskipti í þeim. Með kjallaragreinum Dagblaðsins hefur fyrst tekizt að ná með skipulegum hætti í einn stað öllum blæbrigðum stjórnmálaskoðana í landinu.

Auðvelt var fyrir ráðamenn Alþýðuflokksins að átta sig á gildi slíkra kjallaragreina, því að þeir höfðu tæpast fjölmiðli á að skipa sjálfir. Sjálfstæðismenn, sem töldu sig hafa næga fjölmiðlun fyrir, voru hins vegar seinni að átta sig.

Vanda flokksblaðanna má sjá í grein Hrafns Sæmundssonar í Þjóðviljanum 21. júlí. Þar segir hann m.a. um Þjóðviljann: “Í einu atriði er blaðið þó að síga aftur úr. Það er í því hlutverki að koma til móts við þær kröfur, að færð væru inn í blaðið umræður um þjóðfélagsmál á öllum sviðum.

Þjóðviljinn getur ekki fetað í fótspor Dagblaðsins, hvað þetta snertir. Það væri fráleitt, ef Þjóðviljinn færi að birta efni, sem gengi í berhögg við efni og tilgang blaðsins. Almenn skoðanaskipti eiga hins vegar heima í Dagblaðinu vegna þess, að þar á það við og þjónar stefnu og tilgangi þess blaðs.”

Hrafn vill, að Þjóðviljinn moði úr 1000 skoðunum kjósenda Alþýðubandalagsins. Vandinn er hins vegar sá, að útbreiðsla Þjóðviljans er í samræmi við atkvæðafjölda Alþýðubandalagsins, svo að blaðið dugir tæpast til að breiða út guðspjöllin, hvort sem þau eru eitt eða þúsund.

Enn meiri er vandi Alþýðuflokksins, sem gefur út dagblað, sem nær aðeins til lítils brots kjósenda flokksins og sama sem ekkert til annarra kjósenda. Pólitískur fjórblöðungur er hagkvæm fjárhagsleg lausn, en hefur engin pólitísk áhrif.

Óháð dagblöð hafa ekki aðeins fréttir og skoðanaskipti, heldur einnig eigin skoðanir. Áhrif þeirra falla hins vegar í skugga tvenns hins fyrrnefnda. Þótt Morgunblaðið segi hið gagnstæða, hefur Dagblaðið sett fram í leiðurum undanfarins árs ýtarlegar tillögur í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, svo að dæmi séu nefnd.

Þessar tillögur eru grundvöllur gagnrýni Dagblaðsins á atvinnuvegastefnu stjórnvalda. Þær hafa hins vegar ekki náð fram að ganga. Slík eru eðlileg takmörk áhrifa óháðra blaða.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið