Miðasala á Lækjartorgi

Punktar

Ágæt umræða í gær á fésbók Gísla Marteins borgarfulltrúa um turninn gamla, sem settur verður á Lækjartorg. Ýmsar hugmyndir eru um nýting hans og leizt mönnum vel á að nota hann sem miðasölu. Einkum fyrir leikhús og uppákomur. Slíkir turnar eru í erlendum stórborgum og mikið notaðir. Til dæmis miðar á niðursettu verði á sýningardegi. Í London er turninn á Leicester Square og í New York á Father Duffy Square í norðurenda Times Square. Mikil umsetning er á báðum stöðum og jafnan mikið líf kringum turnana. Gamli turninn er flottur og tæki sig vel út á Lækjartorgi, sem óneitanlega er þungamiðja borgarinnar.