Hvers vegna erum við að væla og kveina um efnahag og fjárhag okkar sjálfra og þjóðarinnar allrar? Hvers vegna erum við sí og æ að kjósa gersamlega óhæfa stjórnmálamenn, sem ekki gætu unnið fyrir sér á almennum markaði?
Hér gæti verið nóg að bíta og brenna. Lífskjör gætu verið hér hin beztu í heimi, svo er fyrir að þakka auðlindum okkar í fiskistofnum, vatnsföllum og jarðvarma. Við þurfum bara að framkvæma tillögur, sem margoft hafa verið settar fram og rækilega rökstuddar:
Komið verði með vaktavinnu á betri nýtingu fiskvinnslustöðva landsins og með áhafnaskiptum betri nýtingu á veiðiflota landsins, svo að frekari fjárfesting beinist fremur að framleiðniaukandi tækniframförum en aukinni afkastagetu.
Komið verði í sjávarútvegi á fót sölu veiðileyfa til að hindra meiri sókn en þarf til fjárhagslega hagkvæmustu nýtingar fiskistofna. Tekjunum verði að hluta varið til að framleiðniþróa sjávarútveginn, þar með talinn fiskiðnaðinn.
Opinber gengisskráning falli niður og þeim, sem afla erlends gjaldeyris, þar á meðal sjávarútveginum, verði heimilað að selja hann á frjálsum markaði. Jafnframt verði heimiluð frjáls notkun erlends gjaldeyris innanlands.
Allar fjárskuldbindingar verði fyllilega verðtryggðar samkvæmt lánskjaravísitölu, einnig afurðalán, önnur sjálfvirk lán og öll forréttindalán.
Afnumin verði öll mismunun atvinnuvega á kostnað iðnaðar, til dæmis í formi lánaaðgangs, lánskjara, afskrifta, lánatrygginga, fasteignagjalda, orkugjalda, olíustyrkja, aðstöðugjalds og launaskatts.
Hætt verði í áföngum öllum styrkjum í landbúnaði, niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum, svo og innflutningsbanni landbúnaðarafurða.
Hluta sparnaðarins, eða sem nemur styrkjum og útflutningsuppbótum, verði varið til að efla arðbærar búgreinar, svo sem loðdýrarækt, fiskirækt og ylrækt, og til að reisa iðngarða í samdráttarhéruðum hins hefðbundna landbúnaðar.
Öðrum hluta sparnaðarins, eða sem nemur niðurgreiðslum, verði varið til skattalækkana, einkum hjá barnmörgu fólki, sem nú nýtur niðurgreiðslanna mest.
Í stað verðlagshafta komi rannsóknir og fræðsla um vöruverð og vörugæði. Í stað einkaréttar á flugi, grænmetisverzlun og á öðrum sviðum komi frjáls samkeppni.
Opinbera geiranum, það er opinberri þjónustu og opinberri fjárfestingu, verði haldið innan við 20% mannaflans og 20% þjóðarframleiðslunnar á hverjum tíma.
Sparnaður og tekjuauki samkvæmt framangreindum tillögum verði notaður til að stuðla svo að nýjum og efnilegum atvinnugreinum og hinum arðbærustu í hópi hinna hefðbundnu, að jafnan sé hér full atvinna, þrátt fyrir samdrátt hins hefðbundna landbúnaðar og þrátt fyrir áætlaða heildaraukningu íslenzks mannafla um 25.000 á næstu 20 árum.
Samið verði um orkusölu til þeirrar þreföldunar stóriðju á næstu 10-15 árum, sem stjórnmálaflokkarnir virðast vera sammála um. Jafnframt verði reynt að ná vinsamlegu samstarfi við útlendinga upp á þau býti, að smám saman geti íslenzkir aðilar keypt hina erlendu út.
Þessar tillögur hefur Dagblaðið flutt hvað eftir annað, en mest fyrir daufum eyrum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið