Merkasti minnisvarðinn

Greinar

Ekki er unnt að minnast ellefu alda búsetu í landinu á verðugri hátt en væntanlega verður gert á Þingvöllum á sunnudaginn. Þá mun nýkjörið Alþingi koma þar saman til að samþykkja fimm ára landgræðsluáætlun, er á að bjarga þeim jarðvegi og gróðri, sem nú er í hættu, og snúa vörn í sókn.

Forfeður okkar komu hér fyrir ellefu öldum að gróðursælu landi, viði vöxnu milli fjalls og fjöru. Þessi landgæði hefur þjóðin smám saman verið að taka út á ellefu öldum sér til lífsviðurværis. Þeim hefur verið eytt, án þess að nokkru hafi verið skilað í staðinn

Nú er svo komið, að gróðursvæði landsins hafa rýrnað um helming að flatarmáli og miklum mun meira að gæðum. Þrátt fyrir umfangsmikla sandgræðslu undanfarinna áratuga hafa uppblástur og gróðureyðing ekki látið af sókn sinni.

Við getum ekki álasað forfeðrum okkar fyrir meðferðina á landinu. Sultur og harðindi hafa fylgt þjóðinni mestan hluta búsetu hennar í landinu. Menn hjuggu skóginn og ofbeittu landið til að halda lífi frá ári til árs. Þeir höfðu ekki aðstöðu til að líta til fjarlægrar framtíðar.

Nú er þjóðin hins vegar skyndilega orðin rík og býr þar að auki yfir mikilli þekkingu, meðal annars í vistfræði. Við getum litið yfir vítahring forfeðranna og vitum, hvað við eigum að gera til að skila landinu aftur því, sem tekið hefur verið frá því. Og síðast en ekki sízt höfum við ráð á að greiða ellefu alda gamla skuld okkar við landið.

Landgræðsluáætlunin er ítarleg 211 síðna bók. Þar eru sundurliðuð þau verkefni. er brýnust eru. Kostnaður við þau er áætlaður einn milljarður króna, sem skiptist í 200 milljónir króna á ári í fimm ár.

Takmark áætlunarinnar er að stöðva uppblástur,sandfok og aðra jarðvegseyðingu; koma í veg fyrir hvers konar gróðurskemmdir og gróðurrýrnun; koma gróðurnýtingu og beit í það horf, að gróðri fari fram; og friða þau skóglendi, sem þess eru verð og tryggja, að þau gangi hvergi úr sér; leggja grundvöll að nýjum skógum til fegrunar, nytja, skjóls og útivistar, þar sem það hentar; stuðla að endurgræðslu örfoka og ógróinna landa, sem æskilegt er, að breytist í gróðurlendi; og efla rannsóknir á þessum sviðum, þannig að sem traustastur grundvöllur sé undir öllu, sem gert er til að ná þessum markmiðum.

Ráðgert er að skipta fjármagninu á þann veg, að 705 milljónir renni til sandgræðslu á vegum Landgræðslu ríkisins, 165 milljónir til skógræktar, 80 milljónir til rannsókna og 50 milljónir til landnýtingarmála.

Þetta fimm ára átak á að nægja til að snúa vörn í sókn í gróðri landsins. Þar með er ekki sagt, að staðar verði numið eftir fimm ár. Miklu fremur er ástæða til að gera þetta að samfelldu átaki næstu áratuga, þannig að um næstu aldamót getum við sagt, að verulegur hluti skuldar þjóðarinnar við landið hafi þegar verið greiddur.

Landgræðsluáætlunin er aðalsmerki þjóðhátíðarinnar á Þingvöllum á sunnudaginn. Hún markar tímamót í viðskiptum Íslendinga við umhverfi sitt í landinu.

Jónas Kristjánsson

Vísir