Menning við nögl

Greinar

Ekki er menningaráhuganum fyrir að fara, þegar þingmenn og ráðherrar halda hina árlegu brennu á verðmætum, sem nefnd er afgreiðsla fjárlaga. Þá hrista landsfeður höfuðin út af tugum milljóna til menningarmála, en kasta í öðrum efnum hundruðum og þúsundum milljóna á sjó út.

Nú er deilt um, hvort unnt sé að gera út sinfóníuhljómsveit, hver sultarlaun listamanna hennar eigi að vera, hvort þeir skuli vera 70 eða 80 talsins og hvort sveitin eigi að geta haft tónskáld á launum til skiptis.

Þjóðleikhúsið hefur árum saman verið svo illa statt, að stundum hefur tollstjóri orðið að innsigla húsið vegna vangreiddra gjalda. Felst þó í leikhúsinu eins og hljómsveitinni ákveðin menningarþjónusta, sem þjóðin hefur fyrir löngu falið ríkinu að sjá um.

Gömul og góð regla er að gera hlutina vel, ef þeir eru gerðir á annað borð. Það er ekki nóg með, að við eigum að geta rekið Þjóðleikhús og sinfóníuhljómsveit með alþjóðlegum sóma, heldur eigum við einnig að geta rekið við leikhúsið óperudeild og ballettdeild með fastlaunuðum listamönnum.

Allir þessir þættir eru angar hámenningar, sem ekki fá staðizt í fámennu landi, nema hinn sameiginlegi sjóður landsmanna kosti þá að verulegu leyti. Þar á ofan þarf þessi sjóður að kosta ferðir þessara stofnana um land allt, ef vel á að vera.

Úr því við erum að þessu á annað borð, eigum við að gera það vel. Munurinn á vönduðu og óvönduðu í ofangreindum dæmum er ekki nema nokkrir tugir milljóna, ef til vill hundrað milljón krónur.

Svo vel vill til, að hinn sameiginlegi sjóður landsmanna hefur vel efni á þessu, ef þingmenn og ráðherrar kærðu sig um. Þeir eru bara of önnum kafnir við að grýta peningum í aðrar áttir.

Ef þingmenn og ráðherrar höfnuðu kaupum á Víðishúsinu einu, væri nóg fé til. Þar á að kasta í súginn 138 milljónum króna umfram nákvæmt matsverð hússins og verja samtals 600 milljónum króna til að gera það nothæft, að svo miklu leyti, sem unnt er að nota slíkt orð um þetta hús.

Svo grófir eru þingmenn og ráðherrar í fjáraustri, að þeir borga 11.600 milljónir króna af almannafé til rányrkju á afréttum og offramleiðslu á ofboðslega dýrum landbúnaðarafurðum, akkúrat eins og þar sé um eins konar opinbera þjónustu að ræða.

Þessum 11.600 milljónum ætti auðvitað að verja til arðbærra atvinnuvega, er síðan geti staðið undir fjölbreyttri hámenningu. En dæmið um Víðishúsið sýnir, að þar fyrir utan eru til nógir peningar, sem betur væru komnir í hámenningu en í brunarústum.

Það er eins og hvert annað bull, að ekki séu til peningar til að halda uppi þjónustu á sviði hámenningar hér á landi. Yfirlýsingar um slíkt eru aðeins undanbrögð manna, sem annars vegar hafa ekki áhuga og hins vegar telja sig þurfa að þjónusta gæðinga kerfisins. Svei þeim öllum saman.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið