Samkomulag Begins og Sadats að undirlagi Carters er nánast of gott til að geta verið satt. Það ber vitni um óvenjulega mikinn stjórnmalaþroska leiðtoganna, sem að því stöðu. Nú er eftir að vita, hvernig það reynist í köldum vindum þjóðahaturs.
Sadat Egyptalandaforseti hefur tekið stærsta áhættu í samkomulaginu. Utanríkisráðherra hans hefur sagt af sér í mótmælaskyni. Sýrlandsstjórn og samtök landflótta Palestínumanna bölsótast.
Staða Sadats meðal ríkja Araba mundi batna, ef Carter Bandaríkjaforseta og Vance utanríkisráðherra tekst að sannfæra Hussein Jórdaníukonung og Fahd, krónprins Saúdi-Arabíu, um kosti samkomulagsins. Á þessu stigi er ekki unnt að spá um árangurinn.
Begin, forsætisráðherra Ísraels, er í minni stjórnmálavanda heima fyrir. Stjórnarandstaðan í Ísrael hefur hingað til verið friðsamari en hann. Þar á ofan hefur innan stjórnar hans myndazt andstaða gegn lítt sveigjanlegri afstöðu hans til samkomulags.
Samt er það Begin, sem hefur gefið meira eftir í hinum langvinnu viðræðum í Camp David, sumarhúsi forseta Bandaríkjanna. Flestir munu telja það eðlilega niðurstöðu, því að fyrir fundinn var Sadat búinn að gefa meira eftir.
Samkvæmt samkomulaginu mun Ísrael smám saman afhenda Egyptalandi yfirráð yfir Sínaí-skaga á næstu þremur árum. Jafnframt munu ríkin taka upp stjórnmálasamband á tímabilinu.
Egyptar segjast þó ekki undirrita friðarsáttmála fyrr en nýleg byggð Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum hefur verið lögð niður. Ísraelsmenn vilja hins vegar ekki ganga lengra en að lofa stöðvun á frekari útfærslu slíkrar byggðar.
Í samkomulaginu er gert ráð fyrir, að íbúar vesturbakka Jórdan-ár og Gaza-svæðisins geti stofnað sjálfstætt Palestínuríki eftir fimm ár.
Enn er óljóst, hver endanleg landamæri Ísraels verða, hver verður framtíð Jerúsalem og hvað gert verður til að tryggja öryggi Ísraels.
Hvort tveggja er ljóst, að mikill árangur hefur náðst á einum fundi og að mikið vatn á enn eftir að renna til sjávar, áður en Miðausturlönd hætta að vera púðurtunna.
Niðurstaðan er í rauninni töluverður sigur Sadats. Það var hann, sem olli þáttaskilum á sínum tíma, þegar hann heimsótti Begin til Ísraels. Hann átti á þann hátt frumkvæði að þeirri þróun, sem náði hámarki á fundinum í Camp David.
Samkvæmt samkomulaginu á Egyptaland að vinna aftur sitt gamla land í eyðimörkinni. Ef þróunin verður í samræmi við samkomulagið, hefur Sadat náð því við samningaborðið, sem tapaðist á vígvellinum.
Enginn vafi er á, að Begin hefur verið undir miklum þrýstingi á undanförnum mánuðum. Sadat var búinn að ná samúð umheimsins, meðan Begin sætti vaxandi gagnrýni fyrir ósveigjanleika. Þessa þrýstings gætti í Ísrael, allt inn í raðir ráðherranna.
Orðstír Carters Bandaríkjaforseta hefur aukizt mjög af samkomulagi Begins og Sadats. Það var Carter, sem var sáttasemjari í þessari árangursríku lotu í Camp David. Hann hefur nú tekið að sér að fylgja samkomulaginu eftir.
Um allan heim vona menn, að farsæld hans minnki ekki í eftirleiknum. Þar verður við menn að eiga, sem ekki hafa reisn og göfgi á borð við Begin og Sadat.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið