Lífskjör hafa versnað síðustu mánuði í flestum nágrannalöndum okkar. Verðbólga geisar um heim allan. Jafnframt hefur framleiðsla dregizt saman og atvinnuleysi aukizt gífurlega. Baráttan gegn þessari óhugnanlegu þróun er um þessar mundir meginviðfangsefni flestra ríkisstjórna á Vesturlöndum.
Við stóðum í haust andspænis þessu sama vandamáli og var það magnaðra hér en víðast annars staðar. Verðbólgan var komin upp í 42% á ári og stefndi óðfluga í 60-70% á ári. Atvinnuvegirnir voru reknir með gífurlegu tapi. Samdráttur og almennt atvinnuleysi virtust vera á næsta leiti.
Nýja ríkisstjórnin tók strax til óspilltra málanna. Hver ráðstöfunin rak aðra á tímabili, og voru þær svo djúptækar, að líkja mátti við uppskurð á efnahagskerfi þjóðarinnar. Sérfræðingar voru líka á einu máli um, að ástandið væri svo alvarlegt, að ekki dygðu nein vettlingatök.
Hornsteinar aðgerðanna voru gengislækkun og áframhaldandi frysting kaupgreiðsluvísitölu. Þetta skerti að sjálfsögðu lífskjörin, og bjuggust menn við, að þau mundu síga niður á það stig, sem þau voru á fyrir þremur áum. Nú er hins vegar komið í ljós, að unnt á að vera að komast hjá því, að lífskjörin verði rýrari en þau voru í fyrra.
Þetta byggist á sérstökum ráðstöfunum, sem ríkisstjórnin framkvæmdi að höfðu samráði við heildarsamtök launþega. Meðal þessara ráðstafana voru sérstakar láglaunabætur og hækkanir á bótum almannatrygginga, sem hvort tveggja miðaði að því að tryggja hina verst settu í þjóðfélaginu gegn afleiðingum gengislækkunar og vísitölufrystingar.
Margir forustumenn launþegasamtaka áttuðu sig á, hve mikið var í húfi, og tóku ekki fjandsamlega afstöðu til björgunaraðgerðanna í heild. Aðrir hafa hins vegar látið ófriðlega og virðast stefna að því að reyna að eyðileggja aðgerðirnar með ófriði í atvinnulífinu.
Uppsögn kjarasamninganna þarf ekki að tákna að launþegasamtökin hyggist vinna gegn áformum ríkisstjórnarinnar. Líta má á uppsögnina sem öryggisatriði, tilraun til að halda öllum trompum á hendi. Það er alls ekki víst, að uppsagnir leiði til harðra vinnudeilna og síðan til verkfalla.
En næstu vikur verða áreiðanlega örlagaríkar. Þá kemur í ljós, hvað forustumenn launþegasamtakanna hyggjast gera við fjöregg þjóðarinnar, sem þeir halda nú á. Um næstu mánaðamót verða flestir samningar lausir og þá fer að koma í ljós, hvaða stefna verður ofan á.
Hinir ábyrgu munu átta sig á, að með vinnufriði eru töluverðar líkur á, að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar muni koma efnahagslífinu aftur á réttan kjöl, hindra atvinnuleysi og halda lífskjörunum í því marki, sem þau náðu í fyrra. En margir munu verða til að freista þeirra og segja þeim, að þeir séu ekki nógu skeleggir leiðtogar,ef þeir fari ekki í hart. Og hina óbilgjörnu í þessum hópi þarf ekki að eggja.
Það þarf nokkurn siðferðisstyrk til að standast slíkar freistingar og eggjanir. En þeir, sem gera það og stuðla með þeim hætti að endurreisn efnahagslífsins og síðari lífskjarabótum, eru menn að meiri.
Jónas Kristjánsson
Vísir