Hversu margir Íslendingar gera sér grein fyrir, að hráefni í hversdagsmat getur að minnsta kosti numið allt frá 150 krónum upp í 700 krónur í kostnaði á mann?
Á fjórðu síðu Dagblaðsins í dag er uppskrift að köldum fiski með grænmeti, sem kostar í hráefnum 314 krónur á mann. Þetta er í þættinum “Á neytendamarkaði”, sem hefur göngu sína í dag í umsjón Önnu Bjarnason, blaðamanns og húsmóður.
Síðan munu daglega birtast uppskriftir á þessari síðu. Í öllum tilvikum verður rakið, hvað hráefnið í matargerðina kostar. Í uppskriftum fyrstu viknanna sveiflast kostnaðurinn frá 150 krónum upp í 700 krónur og hærra, ef um veizlumat er að ræða.
Með þessu er ætlunin að hjálpa neytendum að átta sig á, hvaða fjármálaákvarðanir þeir eru í rauninni að taka, þegar þeir eru að velja sér í matinn. Smávægileg aukning á aðhaldi á þessu sviði getur ráðið úrslitum um fjárhag heimilanna.
Hver veit, hvað kostar að reka uppþvottavél? Hver veit, hvað fæst mikil kartöflustappa úr pökkum mismunandi framleiðenda? Hver veit, hvað hver súpudiskur kostar úr pökkum mismunandi framleiðenda? Hver veit, hvað ýmsar tegundir af appelsínumarmelaði kosta og hvað það kostar heimatilbúið? Og hver veit, hvaða verzlanir hafa ódýrasta salatsósu?
Dagblaðið hyggst svara þessum spurningum í þættinum “Á neytendamarkaði” í dag og næstu daga. Þar verða borin saman verð á sömu vöru í mörgum verzlunum. Bornar verða saman hliðstæðar vörur margra framleiðenda, bæði verð og magn og stundum gæði.
Þá verður í þættinum sagt frá hagstæðasta verði og tilboðsverðum dagsins. Allt þetta stefnir að því, að neytendur geti eflt verðskyn sitt og hagnazt í daglegum viðskiptum.
Dagblaðið mun sjálft gera sumar prófanir og rannsóknir í þessu sambandi og einnig fá slíkar athuganir gerðar annars staðar. Ennfremur verður byggt á erlendum rannsóknum.
Dagblaðið og Vikan munu hafa samstarf í þessari herferð. Meðal annars munu blöðin sameiginlega búa til skrautlegt veggspjald, sem hægt er að nota sem heimilisdagbók. Verður öllum áskrifendum Dagblaðsins sent þetta veggspjald um mánaðamótin næstu.
Dagblaðið óskar eftir, að lesendur blaðsins geri vart við sig með því að skrifa eða hringja í síma 27022 og biðja um þáttinn “Á neytendamarkaði” eða “Raddir lesenda”.
Við viljum, að lesendur beini til okkar fyrirspurnum, bendi okkur á verkefni, gefi góð ráð og taki á annan hátt sem mestan þátt í að efla þessa neytendaþjónustu, sem hefst á fjórðu síðu Dagblaðsins í dag.
Þjónustan mun síðan þróast í samræmi við áhuga neytenda. Þeir hafa nú tækifæri til að beita nýju vopni í hinni daglegu baráttu sinni við verðbólguna, sem allir tala um, en enginn gerir neitt í.
Tvær vondar ríkisstjórnir í röð hafa leikið fjárhag heimilanna grátt. Önnur var til vinstri og hin er til hægri. Og því miður eru horfur á, að Íslendingar muni halda áfram að dragast aftur úr nágrannaþjóðunum, hverjir svo sem næst stjórna.
Á meðan eiga neytendur þann kost beztan að taka þátt í herferð Dagblaðsins undir kjörorðinu: “Meira fyrir mánaðarlaunin”.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið