Alþingismenn eru ekki lengur bankastjórar og ráðherrar láta ekki lengur geyma fyrir sig bankastjórastóla. Almenningur hefur fyrir löngu knúið fram þennan samdrátt í stjórnmálaspillingu.
Samt er bankakerfið gerspillt sem fyrr. Enn eru útlán bankanna sumpart verðbólgugjafir, sem sérstakir pólitískir gæðingar njóta langt umfram venjulegt fólk. Um þetta hafa menn ótal dæmi.
Slit hinna beinu tengsla alþingis og ríkisstjórnar annars vegar og bankanna hins vegar hafa bætt ástandið, en bara örlítið. Spillingin er að minnsta kosti ekki lengur auglýst á yfirborðinu.
Enn er þó til banki, sem auglýsir fjármálaspillingu stjórnmálanna á yfirborðinu. Það er Framkvæmastofnun ríkisins, sem hefur alþingismenn að kommissörum. Stofnunin annast útlán Byggðasjóðs og kommissararnir eru bankastjórar sjóðsins.
Hið pólitíska úthlutunarkerfi Framkvæmdastofnunarinnar er á ábyrgð allra stjórnmálaflokkanna. Því var komið á fót með kommissörum frá Framsókn, Alþýðubandalagi og Samtökunum, sem þá fóru með völd.
Sjálfstæðisflokkurinn þóttist á sínum tíma vera á móti Framkvæmdastofnuninni og kommissarakerfinu. Græðgin reyndist þó yfirsterkari, þegar flokkurinn komst í stjórn með Framsókn.
Í þeirri helmingaskiptastjórn hafði hvor flokkur sinn kommissar og voru þeir báðir alþingismenn um leið. Undu flokkarnir sér einkar vel við kjötkatlana og héldu góðan frið hvor við annan.
Nú hafa enn orðið stjórnarskipti í landinu og stjórnmálaspillingin í Framkvæmdastofnuninni er aftur komin til umræðu. Má búast við, að tekin verði upp sú regla, að kommissarar megi ekki vera alþingismenn.
Hinn rótgróni spillingarflokkur, Framsókn, vill halda óbreyttu yfirborði. Því til sönnunar hefur að undanförnu nokkrum sinnum verið vitnað til ummæla Tómasar Árnasonar, áður kommissars, nú fjármálaráðherra. Hann hefur ekki borið þau til baka.
Haft er eftir Tómasi, að kommissarastarfið sé svo mikilvægt flokknum, að Tómas mundi fremur gefa eftir ráðherraembættið og fara aftur í Framkvæmdastofnunina, ef annars væri hætta að Framsóknarflokkurinn missti kommissar sinn.
Alþýðuflokkurinn hefur krafizt þess, að kommissarakerfið verði lagt niður. Ólafur Jóhannesson reyndi að friða uppreisnarmenn í Alþýðuflokknum með því að gera Sighvat Björgvinsson alþingismann að stjórnarformanni Framkvæmdastofnunarinnar.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur boðað frumvarp Alþýðubandalagsins um, að þingmenn megi ekki vera kommissarar. Jafnframt sagði hann, að þingmönnum Alþýðuflokksins og annarra flokka yrði gefinn kostur á að vera með í að flytja málið. Búast má við, að Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn geti kúgað Framsóknarflokkinn í þessu máli. Slit hinna beinu tengsla alþingis og Framkvæmdastofnunar hljóta að verða til örlítilla bóta.
Um leið verður að minna á, að breytingin er engin patentvörn gegn spillingu. Hún dregur einkum úr henni á yfirborðinu eins og gerðist í bönkunum á sínum tíma. Auðvitað heldur hún áfram undir niðri.
Stjórnmál á Íslandi verða áfram barátta ránsflokka um herfang verðbólgugróðans. Samt er alltaf mikils virði, þegar ræningjar þora ekki lengur að spóka sig með spillinguna á yfirborðinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið