Stóraukin útbreiðsla svonefndra heilsubrauða í bakaríum hér á landi er gott dæmi um vaxandi áhuga almennings á heilbrigðu mataræði. Bakararnir, sem bjóða upp á þessi brauð, væru færri en raun ber vitni um, ef ekki væri góð sala í þessum brauðum.
Flestir sérfróðir menn eru sammála um, að heilt korn og grófmalað sé betri fæða en slípað og jafnvel litað korn, sem lengi hefur verið uppistaða í fæðu Íslendinga. Náttúrulækningafélögin urðu fyrst til að breiða út þetta sjónarmið og nú hafa hjartaverndarfélögin tekið í sama streng.
Óspillt korn með trefjaefnum er ekki eina framfaramálið í mataræði Íslendinga. Baráttan gegn fituríkri fæðu er einnig farin að bera nokkurn árangur, enda eru flestir sérfróðir menn sammála um, að Íslendingar borði of mikla fitu, einkum mettaða dýrafitu.
Osta- og smjörsalan hefur lengi haft á boð- stólum 30% ost og er nú farin að framleiða 20% ost. Bændur hafa á Búnaðarþingi lagt til, að hafin verði framleiðsla léttmjólkur með svipuðu fitumagni og er í mjólk erlendis. Mikil framför yrði að slíkri framleiðslu, því að nú er íslenzka mjólkin of feit, að minnsta kosti fyrir fullorðið fólk.
Minni árangur hefur náðst í kjötframleiðslunni, enda virðast ráðamenn sauðfjárkynbóta telja fátt mat annað en feitt kjöt. Þetta vígi úreltra sjónarmiða hlýtur þó að falla fyrr eða síðar.
Enn minni árangur hefur náðst gegn sykurneyzlu, enda hefur farið minna fyrir áróðri á því sviði. Eðlileg ársneyzla sykurs er talin vera um fjögur kíló á mann og í formi náttúrlegs sykurs. Íslendingar hakka hins vegar í sig 80-100 kíló af sykri á mann á ári og það í hreinræktuðu lyfjaformi.
Smám saman eru merkingar matvæla að skána, þótt yfirvöld hafi farið afar rólega af stað á því sviði. Fyrirtæki eins og Osta- og smjörsalan og Samband íslenzkra samvinnufélaga eru ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum fremst á þessu sviði.
Íslenzkir neytendur eru smám saman að venjast matvælum frá Bandaríkjunum og ýmsum öðrum löndum, þar sem merking matvæla er komin í gott lag. Á þessum vörum sést ekki aðeins samsetning vörunnar og tegundir aukaefna í henni, heldur líka prósentuhlutfall hinna ýmsu næringarefna í hverjum 100 grömmum fæðunnar.
Þessar merkingar hljóta að efla skilning þjóðarinnar á næringarefnum og heilbrigðu mataræði. Sérfræðingar hafa bent á, að mikil tíðni krabbameins og hjartasjúkdóma hér á landi bendi til þess, að ekki sé vanþörf á breyttu mataræði. Og smám saman eru neytendur farnir að átta sig á viðvörunum sérfræðinga.
Auðvitað eru sérfræðingarnir ekki enn sammála um alla hluti. Þeir ganga mislangt í skoðunum sínum á, hvað borða skuli og hvað ekki. En flestir virðast þeir sammála um, að hér sé borðað of mikið af sykri, fitu, aukaefnum og of lítið af trefjaefnum.
Aðalatriðið er þó, að fólk er farið að taka mark á þessu. Það er farið að átta sig á, að matur er mannsins megin.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið