Marklaus fjárlög

Greinar

Alþingi er að missa tökin á fjármálum ríkisins. Fjárlögin eru byggð upp á ótal smáatriðum, sem menn telja nauðsynleg eða æskileg. Svo þegar búið er að telja saman alla þessa liði, vakna menn upp við vondan draum og sjá, að útgjöld fjárlaga eru komin langt umfram tekjur. Þá grípa menn til hins gamalkunna ráðs að teygja tekjudálkinn og leggja hærri skatta á þjóðina.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í fjárveitingarnefnd lögðu sérstaka áherzlu á þetta vandamál í minnihlutaáliti sínu. Þeir töldu skynsamlegra að byrja á því að ákveða endanlega heildarupphæð ríkisútgjalda og skiptingu hennar milli málaflokka, áður en farið er að deila niður upphæðum á einstök verkefni.

Á þessi rök var ekki hlustað í þetta sinn frekar en undanfarin ár. Fjárlagafrumvarpið er þegar komið upp í rúm 28% áætlaðrar þjóðarframleiðslu á næsta ári og fer upp í 29-30%, þegar búið er að bæta við það þeim hækkunum launa og tryggingabóta, sem þegar eru komnar fram. Er þó ekkert tillit tekið til kjarasamninganna, sem nú standa yfir.

Á undanförnum árum hefur ríkisbáknið ekki magnazt í takt við verðbólguna, heldur langt umfram hana. Hlutur ríkisins af þjóðarframleiðslunni var ekki nema 17,5% árið 1965, en er nú orðinn 27% og verður 30% á næsta ári, ef núverandi fjármálastefna fær að ráða fjárlögum. Þessi krabbameinsvöxtur þrengir ógæfulega að fjölskyldum og fyrirtækjum, er fá sífellt minni hluta kökunnar, sem er til skiptanna.

Síðasta ár viðreisnarstjórnarinnar námu fjárlögin 11 milljörðum króna. Fyrsta ár vinstri stjórnarinnar hoppuðu þau upp í 17 milljarða. Næsta ár þar á eftir, árið í ár, upp í 22 milljarða og árið 1974 upp í 29,5 milljarða, ef að líkum lætur. Þetta er 50% hækkun árið 1972, 30% hækkun áríð 1973 og 35% hækkun árið 1974. Eru þau nú nærri þrefalt hærri en þau voru fyrir aðeins þremur árum.

Ríkisstjórnin hyggst teygja tekjudálk fjárlaganna í þetta sinn með hækkun söluskatts, auk þess sem hún hyggst breyta hluta tekjuskattsins í söluskatt. Þetta hefur vakið harða andstöðu stjórnarandstöðunnar. Til liðs við hana er kominn Bjarni Guðnason alþingismaður, sem segist munu greiða atkvæði gegn stjórninni í skattahækkunartillögum. Munu slík frumvörp þá falla á jöfnum atkvæðum.

Það er því ábyrgðarlaust hjá ríkisstjórninni og þingmönnum hennar að samþykkja stórkostlega hækkun fjárlaga, ef tekjutillögurnar verða felldar. Slík fjárlög væru markleysa ein. Enda segir í fyrrgreindu minnihlutaáliti: “Við teljum það óhæfa starfsaðstöðu fyrir fjárveitingarnefnd að ætla henni að fjalla um útgjaldabeiðnir, sem skipta hundruðum milljóna, þegar ekki bólar á neinum viðunandi tillögum stjórnvalda um tekjuöflunarleiðir.”

Ráðamennirnir eru svo sannarlega að missa tökin á fjármálum ríkisins.

Jónas Kristjánsson

Vísir