Margir reynast löghlýðnir

Greinar

Alþýðuflokkurinn hefur nú séð eftir aðild sinni að yfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna um “að lýsa fyllsta stuðningi við samþykkt stjórnar Alþýðusambandsins … og viðbrögð verkafólks í Sementsverksmiðju, Áburðarverksmiðju og Kísiliðju”.

Í leiðara Alþýðublaðsins í morgun segir, að með þessu hafi ekki átt að hvetja til lögbrota. Blaðið segir, að lagagildi bráðabirgðalaganna verði ekki dregið í efa. Og það segir Alþýðuflokkinn vera eftir sem áður lýðræðislegan flokk, sem virði lög í hvívetna.

Það er virðingarvert, þegar augu manna opnast fyrir því, að þeir eru komnir út á hálan ís, þegar pólitísk ávinningsvon leiðir þá út í meðmæli með brotum á stjórnarskrá, lögum og siðvenjum þjóðarinnar.

Skammarlegri eru þau viðbrögð, sem á síðari stigum málsins hafa komið fram hjá forstöðumönnum Alþýðusambandsins og endurspeglast í leiðara Alþýðublaðsins í morgun, að kenna starfsfólkinu um lögbrotin og segja það hafa “sem einstaklingar” neitað að mæta til vinnu.

Að sjálfsögðu eru það fyrst og fremst forustumenn Alþýðusambandsins, sem eru ábyrgir fyrir lögbrotunum. Ekkert gerðist, fyrr en þeir voru búnir að semja og birta harðorða yfirlýsingu, þar sem starfsfólkið var hvattog knúið til að brjóta lögin.

Síðan hlaupa þessir forustumenn í felur, neita félagslegri ábyrgð og benda á “einstaklinga”, sem hafi neitað að mæta til vinnu.

Þessir hringsnúningar forustu Alþýðusambandsins minna á mismunandi skoðanir forseta þess, Björns Jónssonar, á bráðabirgðalögum um kjaramál. Þegar hann er í stjórnaraðstöðu kallar hann slík lög “smekksatriði”, en í stjórnarandstöðu kallar hann þau “einstakt ofbeldi” og “svívirðilega árás”.

Staðreyndin er sú, að forustumenn Alþýðusambandsins og stjórnarandstöðuflokkanna töldu sig geta slegið pólitískar keilur út á megna óánægju almennings með kjararýrnun undanfarinna mánaða.

Um helgina kom hins vegar í ljós, að mikill fjöldi manna gerir heilbrigðan greinarmun á heiðarlegri kjarabaráttu og lögbrotum. Þetta kom m.a. fram í, að dæling hófst hjá Kísiliðjunni um hádegi á sunnudag í trássi við vilja og fyrirmæli Alþýðusambandsins.

Þegar lögbrotastefnan var farin að gliðna með þessum hætti, dró forusta Alþýðusambandsins í land og lét kyrrt liggja, þótt starfsfólk verksmiðjanna yrði boðað til afgreiðslustarfa á mánudagsmorgni.

Opnunin á afgreiðslum verksmiðjanna leiddi til þess, að unnt var að hefja samningaviðræður á nýjan leik. Þeim viðræðum hefur síðan verið haldið ósleitilega áfram og gætir vaxandi bjartsýni á, að frjálst samkomulag geri bráðabirgðalögin óþörf. En ein greinlaganna fjallar einmitt um,að þau falli úr gildi, ef deiluaðilar komast að samkomulagi.

Opnun afgreiðslanna hefur bægt áburðarskorti frá mörgum bændum og dregið verulega úr stórtjóni því, sem verkfallið var farið að valda landbúnaðinum. Því miður er ekki unnt að segja hið sama um byggingaiðnaðinn, því að mjög lítið var til af sekkjuðu sementi. Enn blasir því við vaxandi atvinnuleysi í byggingaiðnaði.

Jónas Kristjánsson

Vísir