Endurbygging gamla miðbæjarins í Reykjavík er eitt mikilvægasta verkefnið á dagskrá borgaryfirvalda og jafnframt eitt það erfiðasta. Ótal sjónarmið þarf að sætta. Menn vilja gjarna varðveita gömul hús og húsaraðir. En menn vilja líka, að miðbær Reykjavíkur endurspegli nútímann og athafnalíf hans. Þegar talað er um umferðina, vilja sumir láta greiða götu strætisvagna og gangandi fólks, en aðrir almennrar bílaumferðar. 0g svo þarf að fá hina mörgu og smáu lóðareigendur til að sameinast um byggingu stórra húsasamstæðna, sem búi yfir inna og ytra samræmi.
Aldrei verður hægt að leysa slík vandamál, svo að öllum líki. Hins vegar á Reykjavík ýmsa möguleika, sem aðrar borgir eiga ekki. Tiltölulega lítið hefur verið byggt af varanlegum húsum í miðbæ Reykjavíkur, svo að skipulagsyfirvöld hafa mun frjálsari hendur en ella.
Miðbær er jafnan mikilvægur þáttur í borgarbrag. Það er mikið í húfi, að svo vel takist að endurbyggja gamla miðbæinn í Reykjavík, að hann verði eðlileg og lífræn þungamiðja borgarinnar. Miðbærinn má ekki verða samfelldur banki, heldur hæfileg blanda allrar hugsanlegrar verzlunar og þjónustu annars vegar og frístundaiðju hins vegar. Þetta gera borgaryfirvöld sér ljóst.
Breyting Austurstrætis í göngugötu er eitt skrefið á þessari braut. Ef sú breyting gefst sæmilega vel, liggur beint við að stefna að lokun alls ássins frá Aðalstræti upp að Hlemmtorgi eins og aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir. Sú breyting verður þó varla framkvæmd fyrr en meira hefur verið byggt upp við Laugaveginn.
Við þessa löngu göngubraut þurfa að vera allar þær tegundir sérverzlana, sem þrifizt geta hér á landi. Þar þurfa að vera kjörbúðir og
stórverzlanir. Þar þurfa að vera allar tegundir þjónustu, bæði opinberra aðila og einkaaðila, afgreiðslur og söluskrifstofur. Í þvergötunum þurfa að vera rúmgóðar geymslur fyrir einkabíla. Í bland við allt þetta þurfa svo að vera kaffihús, kvikmyndahús, leikhús, tómstundahús og dansstaðir.
Með slíkri fjölbreytni má tryggja miðbænum í Reykjavík iðandi mannlíf frá morgni til kvölds, gera hann að þungamiðju borgarbragsins. Þetta gerist ekki nema á löngum tíma, bæði vegna stærðar verkefnisins og vegna þeirra erfiðleika, sem ryðja þarf úr vegi.
Það er mikilvægt, að ekki sé tafið fyrir þessari þróun með því að hraða byggingu nýs miðbæjar í Kringlumýri. Nýi miðbærinn má ekki draga úr þéttingu gamla miðbæjarins. Sumir eru óþolinmóðir út af því að sjá ekki hafnar framkvæmdir í Kringlumýri, en sú bið á sínar eðlilegu forsendur.
Sumir borgarbúar sjá bæjarfélagið nærri eingöngu í mynd stórvirkra umferðarholræsa, sem skila þeim skjótt og vel milli heimilis og vinnu. En bæjarfélagið er líka mannlegt samfélag. Sú skynsamlega uppbygging gamla miðbæjarins, sem nú er stefnt að, getur hjálpað okkur til að átta okkur á því.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið