Málið er ekki leyst

Greinar

Of snemmt er að spá, hvort viðræðunefndir þingflokka sjálfstæðismanna og framsóknarmanna leiða til myndunar ríkisstjórnar. En það hlýtur að koma í ljós á næstu dögum, því að öllum er ljóst, að umfangsmikilla björgunaraðgerða er þörf í efnahagslífinu fyrir næstu mánaðamót.

Í fljótu bragði virðist margt benda til þess, að samkomulag verði tiltölulega auðsótt. En séu vandamálin skoðuð ofan í kjölinn, kemur í ljós, að ýmsum steinum þarf að ryðja úr veginum.

Ef Framsóknarflokkurinn losnar úr vinstri herleiðingunni, er sennilegt, að hann sætti sig við þann dóm kjósenda í sumarkosningunum, .að brottför varnarliðsins sé ekki tímabær. Samkomulag um varnarmálin ætti því að geta tekizt án mikillar fyrirhafnar.

Tillögurnar um efnahagsmál, sem Ólafur Jóhannesson lagði fyrir vinstriflokkana fyrir skömmu, bera þess merki, að Framsóknarflokkurinn áttar sig á óveðursskýjunum, sem hrannast upp á himni efnahagsmálanna, og er fús til að taka þátt í stórtækum og ábyrgum aðgerðum, þótt óvinsælar verði í fyrstu.

Frá stjórnfræðilegu sjónarmiði er skiljanlegt, að Ólafur vilji ekki hafa samráð um efnahagsaðgerðir við aðila úti í bæ eins og Alþýðusambandið, sem ekki hefur neitt umboð til afskipta af þingræðislegri stjórnarmyndun.

Hins vegar virðist óraunhæft að byggja stjórnarsamstarf á verulegri kjaraskerðingu án þess að ræða málið við samtök launþega í einhverri mynd. Og tillögur Ólafs um efnahagsmál í vinstri viðræðunum fólu meðal annars í sér, að lífskjör yrðu rýrð jafnmikið í einu vetfangi og þau hafa batnað á síðustu þremur árum.

Ekki er allt fengið, þótt samkomulag takist um brýnustu björgunaraðgerðir í efnahagsmálum. Efnahagskerfi þjóðarinnar er að ýmsu leyti úrelt og kallar á samkomulag um grundvallarbreytingar .Án slíkra breytinga eru bráðabirgðabjarganir unnar fyrir gýg.

Þá munu sjálfstæðismenn vafalaust leggja mikla áherzlu, á, að svo verði búið um hnútana, að Framsóknarflokkurinn hlaupist ekki undan ábyrgð, áður en kjörtímabilið rennur út, eins og kom allt of oft fyrir fyrr á árum.

Loks er þess að geta, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins munu eftir sigurinn í þingkosningunum ekki sætta sig við, að Ólafur Jóhannesson eða annar leiðtogi Framsóknarflokksins verði forsætisráðherra stjórnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í.

Segja má, að slík persónumál eigi ekki að standa í vegi stjórnarmyndunar. En forustumenn Framsóknarflokksins verða að átta sig á, að þetta er tilfinningamál þeirra kjósenda, sem stóðu að baki kosningasigri Sjálfstæðisflokksins. Og ekki er hægt að ætlast til þess, að forustumenn Sjálfstæðisflokksins baki sér reiði eigin kjósenda með eftirgjöf á þessu sviði.

Þau fáu dæmi, sem hér hafa verið rakin, sýna, að samninganefndir þingflokka sjálfstæðismanna og framsóknarmanna verða að leggja hart að sér til að ná samkomulagi, þótt ekki beri mikið í milli sjónarmiða flokkanna á brýnustu aðgerðum. Ekkert vit er í stjórnarsamstarfi, nema einnig sé litið til langs tíma, stefnt að varanlegum umbótum og varanlegu stjórnarsamstarfi.

Jónas Kristjánsson

Vísir