Mál að Ólafsöld linni.

Greinar

Ólafur Jóhannesson er óumdeilanlega stjórnmálamaður áttunda áratugarins á Íslandi. Hann er það enn, þótt hann hafi látið af formennsku Framsóknarflokksins. Hann er ennþá forsætisráðherra og ber – án gæðamats – höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn.

Þar með er ekki sagt, að hann hafi reynzt vel sem þjóðarleiðtogi áratugarins. Þvert á móti hefur þjóðinni farnazt illa undir stjórn hans. Í upphafi Ólafsaldar voru Íslendingar meðal þjóða með beztu lífskjör í Evrópu. Nú hafa velflestar þjóðir Vestur-Evrópu betri lífskjör en Íslendingar.

Stöðnun Íslands á áttunda áratugnum er innlend framleiðsla landsfeðranna. Þeir hafa synt hálfsofandi að feigðarósi, enda hvorki haft fjármálavit né rekstrarvit að leiðarljósi. Fyrirhyggjuleysi þeirra í fiskverndun stappar nærri landráðum.

Ólafur ber þyngstu ábyrgðina af stöðnuninni. Hann hefur verið ráðherra í tæp átta ár samfleytt og þar af forsætisráðherra í fjögur. Hann er sameiningartákn vinstri og hægri stjórna tímabilsins. Hann hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn verið þungamiðja íslenzkra stjórnmála.

Mál er, að dapurri Ólafsöld linni. Því ber að fagna, að Ólafur hefur nú létt af sér formennsku Framsóknarflokksins. Vonandi er það fyrirboði þess, að hann hætti fyrr en síðar að stjórna þjóðinni. Þar þarf nýja menn ekki síður en í flokknum.

Ólafur varð seinn til afskipta af stjórnmálum. Hann var orðinn 46 ára, þegar hann varð þingmaður og nærri sextugur, þegar hann varð ráðherra. Nú er hann kominn yfir miðjan sjöunda áratuginn sinn. Og stjórnmálamenn falla oft í þá gryfju að hætta of seint.

Ólafur er hress eftir aldri og býr yfir gamansemi og jafnaðargeði, sem koma honum vel í samningum og sáttagerð. Enda byggist landsfrægð hans fyrst og fremst á lagni hans og lipurð við að sætta ólík sjónarmið. Hann væri tilvalinn sáttasemjari ríkisins, ef það embætti væri ekki þegar vel setið.

Smám saman hefur komið í ljós, að Ólafur er ekki leiðtogi að sama skapi og hann er sáttasemjari. Sveiflur hans milli Alþýðuflokks og Alþýðubandalags í ríkisstjórn sýna foringja, sem sjálfur hefur enga stefnu nema þá að ná sáttum, hvað sem það kostar.

Í fyrra leiddi Ólafur flokk sinn til kosningaósigurs, er þingmönnum hans fækkaði úr 17 í 12. Á móti því kemur, að Ólafur hefur á formannsferli sínum nærri útrýmt klofningi í flokknum. Róttækustu öflunum var vísað brott og Ólafur sat eftir með nærri einhuga lið í miðflokki.

Eftirmanni hans mun reynast erfitt að halda þessari eindrægni. Hann þarf að færa flokkinn nær nútímanum og það kostar afslátt á sáttalipurð. Enda sýndu bændasinnar flokksins tennurnar á miðstjórnarfundi helgarinnar með því að ná í tvígang um 35% atkvæða á Jón í Seglbúðum gegn 65% atkvæða þéttbýlismanna Steingríms Hermannssonar.

Það er einmitt svona klofning, sem leiðtogar þurfa að þola án þess að rjúfa böndin né leita samkomulags í ónýtri miðju. Ólafur hefur ýmist rofið böndin eða fundið hina ónýtu miðju. Á sínum tíma ýtti hann Möðruvellingum burt. Og nú hefur hann fundið hina ónýtu miðju í efnahagsfrumvarpi sínu.

Með annarri aðferðinni fékk hann frið í flokki sínum og með hinni fékk hann frið í ríkisstjórninni Þannig starfa samningamenn og sáttasemjarar en ekki leiðtogar. Þess vegna er mál, að Ólafsöld linni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið