Áhugamenn um friðun hvala hafa litlum árangri náð á Íslandi. Hin stóru spendýr hafsins njóta lítillar náðar okkar. Við höfum ekki enn tamið okkur þá hugsun, að dapurlegt sé að útrýma tegundum.
Eiginlega er mikill fjöldi Íslendinga skoðanalaus í máli þessu. Menn hafa hvorki trúað grænfriðungum né talsmönnum Hvals hf. í sjávarútvegsráðuneytinu. Og ekkert heyrum við frá Hafrannsóknastofnun, enda munu hvalir ekki flokkast undir fiskifræðinga.
Til skamms tíma höfum við ekki fjandskapazt við grænfriðunga. Við höfum tekið þeim sæmilega, talað við þá og birt skoðanir þeirra á prenti. Þar af leiðandi höfum við verið taldir til siðaðra manna, – til skamms tíma.
Hitt vitum við, að hið ágæta fyrirtæki, Hvalur hf., er vinnuveitandi og skattgreiðandi hér á landi. Það eru grænfriðungar ekki. Þar með vitum við, hvorum megin hjartað slær.
Hversu kaldrifjuð, sem við viljum vera, komumst við ekki af án umheimsins. Við þurfum á þessum umheimi að halda, þótt þar lifi ýmislegt skrítið fólk, þar á meðal grænfriðungar og þeir ekki áhrifalausir.
Við þurfum á umheiminum að halda meðal annars út af Jan Mayen. Í þeirri deilu þurfum við að gera kröfur, sem koma umheiminum á óvart, og við þurfum að standa við þær.
Þeir, sem gera harðar kröfur í stórmálum, ættu helzt ekki að verða annálaðir fyrir harðdrægni í smámálum. En einmitt í þá gildru höfum við fallið núna um helgina.
Í sjónvarpsfréttum sunnudagsins sagði Bolle, sjávarútvegsráðherra Noregs, að hann fagnaði stuðningi Íslands við 200 mílna efnahagslögsögu Norðmanna við Jan Mayen. Ekki er vitað, hvort það var Benedikt Gröndal eða Kjartan Jóhannsson, sem laug þessu í hann.
Slík er eymd landsfeðra okkar, þegar um gífurlega framtíðarhagsmuni okkar er að tefla. Þeir gerast hins vegar breiðir, þegar um smámál er að ræða. Þá geta þeir.
Um helgina var landhelgisgæzlunni beitt gegn grænfriðungum. Það var sama gæzlan og gat ekki tekið þýzkan togara í landhelgi í vikunni. Það var sama gæzlan og hefur uppi lögskýringar um gildi 200 mílna í átt við Jan Mayen.
Landhelgisgæzlan hefur sem sagt fengið verkefni við hæfi og við opinberan fögnuð Steingríms Hermannssonar dómsmálaráðherra. Og ekki verður séð annað en að hún ráði við grænfriðunga.
Hingað til hafa íslenzk stjórnvöld ekki amazt við friðsamlegum mótmælum grænfriðunga. Þeir hafa fengið að reyna að trufla veiðar hins ágæta fyrirtækis, Hvals hf., vinnuveitanda og skattgreiðanda. En nú fá þeir það ekki lengur.
Nú eru Íslendingar stimplaðir úti í heimi sem einstakir sérhagsmunamenn, svo gráðugir, að sjaldgæfar skepnur hafi ekki frið fyrir þeim. Þeir sendi fallbyssubáta gegn heimsfrægum dýravinum.
Og svo vill einmitt til, að þessir ofbeldishneigðu Íslendingar gera kröfur til hagsmuna við Jan Mayen. Þær sjálfsögðu kröfur verða því miður dæmdar af verkum okkar gegn grænfriðungum.
Satt að segja erum við orðin dálítið þreytt á hinu ágæta fyrirtæki, Hval hf., vinnuveitanda og skattgreiðanda. Við höfum ekki séð fyrir endann á gífurlegum kostnaði við að verja það áföllum.
Við flöggum í hvalveiðiráðinu fulltrúa Hvals hf. Og nú fagnar dómsmálaráðherra Hvals hf., aðgerðum landhelgisgæzlu Hvals hf. Mikið ósköp eru menn grunnhyggnir í lýðveldinu Hvalur hf.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið