Luns tókst það

Greinar

Á elleftu stund hefur þorskastríðið milli Breta og Íslendinga tekið nýja og betri stefnu. Þar sem áður var engin von, er nú nokkur von. Deiluaðilar munu á nýjan leik taka upp viðræður, sem legið hafa niðri mánuðum saman.

Það eru afskipti Joseph Luns, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem valda þessari skyndilegu breytingu. Skyndiferð hans til London um helgina var hápunkturinn á sáttastarfi hans. Þá tókst honum að fá Heath, forsætisráðherra Bretlands, til að draga herskipin og dráttarbátana í hlé.

Luns hefur notið stuðnings allra ríkja bandalagsins nema Bretlands í sáttastarfi sínu. Hann hefur lagt sig allan fram í því starfi. Undir það síðasta var hann orðinn svo þreyttur á þrjózku Bretastjórnar,að hann lýsti því yfir í London, að hún stæði í vegi fyrir sáttum með því að draga ekki skip sín í hlé.

Það er athyglisvert við þróun málsins undanfarna daga, að stundum hefur munað litlu, að allt skryppi í baklás aftur. Án skyndiferðar Luns til London og sannfæringarkrafts hans í viðræðunum við Heath forsætisráðherra hefði stjórnmálasamband Íslands og Bretlands slitnað og deilan færzt á miklum mun alvarlegra stig.

Annað atvik í þessari þróun skipti líka sköpum. Í utanríkismálanefnd alþingis lögðu sjálfstæðismennirnir til, að slitum stjórnmálasambands yrði frestað í nokkra daga, meðan fyrra bréf Heaths væri kannað rækilega. Þetta fékk ekki hljómgrunn í nefndinni. En ríkisstjórnin tók góðu heilli upp sjónarmið sjálfstæðismanna og gaf frestinn, sem gerði Luns kleift að gera lokaatlögu að Heath. Ef ríkisstjórnin hefði ekki tekið hinu góða ráði,væri stjórnmálasambandið núna slitið.

Atburðarásin að undanförnu hefur verið þessi: Fyrst sendi Heath vinsamlegt en óljóst bréf, sem reyndist ekki hafa neinar tilslakanir að geyma. Út á þetta bréf var gefinn frestur, sem Luns gat notfært sér til að fá Heath til að slaka á. Eftir samtalið við Luns sendi Heath bréf til Ólafs Jóhannessonar, þar sem hann bauðst til að fara með herskipin og dráttarbátana til bráðabirgða út fyrir 50 mílurnar og bauð Ólafi einkaviðræður í London. Loks svaraði Ólafur, frestaði slitum á stjórnmálasambandi og þekktist boð Heaths um viðræður í London.

Þar með er landhelgisdeilan langt frá því að vera leyst. En þó hefur verið höggvið á harðasta hnútinn. Um sinn hafa skapazt skilyrði til nýrra viðræðna um málið. Þær viðræður geta leitt til bráðabirgðasamkomulags. En þær geta líka orðið árangurslausar og leitt til sama ófremdarástands og ríkt hefur undanfarnar vikur. Mestu máli skiptir, að tilraunin er mikils virði.

Við vitum ekki, hvort afskipti Luns hafa leitt til varanlegrar hugarfarsbreytingar hjá brezkum stjórnvöldum. Ef svo væri, ætti bráðabirgðalausn að geta fundizt, sem brúaði bilið fram til ákvörðunar hafréttarráðstefnunnar um víðáttu auðlindalögsögu. Við hljótum því öll að fagna afskiptum Luns og eftirgjöf Heaths.

Jónas Kristjánsson

Vísir