Sennilega er marxisminn sú kredda heimsins, sem er reynslunni ríkust. Rúmlega öld er síðan marxismanum var fyrst flaggað að ráði í byltingartilraunum í mörgum Evrópuríkjum árið 1874. Og sex áratugir eru síðan fyrsta marxismaríkið reis af grunni, Sovétríkin.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Meira en helmingur jarðarbúa býr nú í ríkjum, sem kenna stjórnskipulag sitt við einhverja útgáfu marxismans. Ef allt væri með felldu, ættu vestrænir marxistar að vera búnir að átta sig á, hver hinna mörgu útgáfa kæmist næst hinu eftirsótta þúsundáraríki.
Evrópukommúnisminn er lokasönnun þess, að vestrænir marxistar eru búnir að gefast upp á að hafa Sovétríkin og fylgiríki þeirra að fyrirmynd. Þeir sem héldu trúnni eftir stalínismann og innrásirnar í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu, glötuðu henni í ofsóknum Sovétstjórnarinnar gegn trúvillingum heima fyrir.
Vestrænir marxistar finna ekki nýja fyrirmynd í Perú né Burma, þar sem ráða afturfótastjórnir herforingja. Ekki heldur í Sómalíu né Eþíópíu, sem heyja stríð sitt í nafni marxismans. Ekki heldur í Tanzaníu né Alsír, þótt stjórnarfar þar í löndum sé heldur skárra. Ekkert slíkra ríkja hefur skapað eldmóð vestrænna marxista.
Kína var lengi helzta fyrirmynd þeirra, sem voru óánægðir með Sovétríkin. Þar var á oddinum maður, sem áttaði sig á stirðnun Sovétríkjanna og vildi hindra hliðstæða þróun í Kína með menningarbyltingu, risastökki og öðrum útgáfum síbyltingar. Þetta var Maó formaður.
Nú er Maó fallinn og stuðningsmenn síbyltingar hraktir frá völdum. Öll völd eru komin í hendur hóps skipuleggjenda, embættismanna og herforingja, sem eru íhaldssamir í eðli sínu eins og ráðamenn Sovétríkjanna. Engar líkur eru á, að byltingareldur tendrist að nýju í Kína.
Valdataka Hua og Deng í Kína er mesta áfall, sem byltingarsinnaðir marxistar hafa beðið. Þeir hafa eiginlega hvergi lengur höfði sínu að halla. Fámennir hópar trúa þó enn á eitt eða fleiri þriggja smáríkja, Kúbu, Kambódsíu og Albaníu.
Trúin á marxisma Kúbu er fráleitust þessara trúarbragða. Ekkert ríkja heimsins er tryggara fylgiríki Sovétríkjanna en einmitt Kúba. Efnahagur og alþjóðastefna þessara tveggja ríkja er svo samtvinnuð, að líta má á Kúbu sem verstöð Sovétríkjanna.
Hinir rauðu Kmerar í Kambódsíu hafa fundið upp villtustu útgáfu marxismans, sem felst í orðunum: drepa, drepa, drepa. Þeir reyna að eyða öllu, sem á sér eldri rætur. Marxismi þeirra er alténd sjálfum sér samkvæmur, þótt hann veki ógeð flestra.
Eftir stendur Albanía, sem nú heldur ein á lofti merki Maós formanns, síðan Kínverjar sviku málstað hans. Einhvern veginn hafa vestrænir marxistar þó verið tregir til að játast undir fyrirmynd Albaníu.
Ýmislegt bendir nú til, að vestrænir marxistar telji marxismann nú loksins fullreyndan, er hann hefur leitt ómælanlegar þjáningar yfir mannkynið, en ekkert þúsundáraríki.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið