Skyndilega er orðið tíðindalítið í þjóðlífinu. Erfitt er orðið að ná sambandi við menn í atvinnulífinu og í opinberum stofnunum. Sumarleyfin eru farin að setja losaralegan blæ á margar skrifstofur og aðra vinnustaði. Þetta má hafa til marks um, að sumarið sé raunverulega komið.
Lognið kom um leið og skrifað hafði verið undir heildarsamningana um launakjör í landinu. Þá storknaði síðasta blekið í þjóðmálum vetrarins. Framundan er friðsamur tími, sem líklega endist fram í október, þegar alþingi á að koma saman að nýju. Fram að því er varla unnt að búast við miklum tíðindum af stjórnmálum.
Ríkisstjórnin þarf að sjálfsögðu að glíma við verðbólguna þessa fjóra sumar- og haustmánuði. Á þessum tíma verða vandamálin samt varla hrikalegri en svo, að ríkisstjórninni takist að velta þeim á undan sér með gamalkunnum aðferðum. Ráðherrar munu varla finna hjá sér óviðráðanlega hvöt til að hlaupa frá vandanum þessa mánuði.
Hugleiðingar um haustkosningar ættu því að vera tómt mál. Flest bendir til, að kosningar verði ekki fyrr en á næsta ári. Hins vegar geta þær orðið nokkuð snemma á næsta ári, því að sveitarstjórnarkosningar verða fyrir mitt árið.
Líklegt er, að forustumenn Sjálfstæðisflokksins vilji hafa þingkosningar að baki, þegar kosningabaráttan hefst að marki í Reykjavík og öðrum meirihlutastöðum flokksins. Það er ekki víst, að Framsóknarflokkurinn verði fyrri til í þetta sinn, enda líður flokknum vel í helmingaskiptafélaginu.
Hið tvöfalda kosningaár mun vafalítið valda stormum í þjóðmálum næsta vetrar eftir logn sumarsins. Stjórnmálaflokkarnir hafa mánuðum saman staðið höllum fæti í hugum kjósenda og stjórnarandstaðan mun vafalaust reyna eftir getu að hagnast á óvinsældum ríkisstjórnarinnar.
Næsti vetur ætti því í stjórnmálunum að vera ólíkur síðasta vetri, sem var með friðsamasta móti. Þá var langt til kosninga og duglítil stjórn með mikinn þingmeirihluta stóð andspænis daufri stjórnarandstöðu. Vonin um ný fylgishlutföll ætti að geta vakið stjórnarandstöðuna af dvala á öndverðum næsta vetri.
Í sumarlogninu fyrir þennan storm er lítil hætta á skúrum. Líklegt er, að ýmsir fámennir hópar, sem ekki fylgdu með í heildarsamningunum um launakjör, vilji rjúfa ramma láglaunastefnunnar í sínum samningum. Ef þetta kemur í ljós, munu fáir álasa ríkisstjórninni, þótt hún lögfesti ramma heildarsamninganna fyrir þjóðfélagið í heild.
Slíkar skúraleiðingar ættu ekki að þurfa að hindra menn í að njóta sumarsins og lognsins fyrir storminn á næsta vetri.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið