Lognið fyrir og eftir.

Greinar

Stormur stjórnarkreppunnar er liðinn hjá. Við sitjum í miðri ládeyðuviku fyrir storma prófkjörs og kosninga. Þetta var stutt hryðja. Stjórnarkreppan stóð aðeins eina viku, að báðum helgum meðtöldum.

Til of mikils var mælzt af Ólafi Jóhannessyni, fráfarandi forsætisráðherra, að hann ryfi þing fyrir Alþýðuflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Í þess stað valdi hann skynsamlegasta kostinn og sagði af sér fyrir sig og ráðuneytið.

Sem betur fer leiddi kreppan ekki til myndunar utanþingsstjórnar. Hinar venjulegu þingræðisleiðir urðu ofan á, þegar Alþýðuflokkurinn myndaði minnihlutastjórn með óbeinum stuðningi Sjálfstæðisflokksins.

Um tíma var þingflokkur jafnaðarmanna andvígur myndun minnihlutastjórnar. Fljótlega áttaði hann sig þá á skyldunum. Alþýðuflokkurinn gat ekki vikizt undan því að leiða til lykta sína eigin þingrofskröfu.

Þar með varð ofan á bezti kosturinn af þremur. Utanþingsstjórnin var sízt. Miðlungsleið hefði falizt í minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins. En alltaf stóð Alþýðuflokknum næst að mynda minnihlutastjórnina.

Alþýðuflokkurinn bakar sér ýmis vandamál með því að axla ábyrgðina. Alvarlegasti vandinn er tæknilegur. Sex ráðherrar flokksins þurfa að eyða tíma í undirritun skjala í ráðuneytum – frá ferðalögum um kjördæmi sín.

Annar vandi felst m.a. í skipun gagnrýnanda dómsmála í embætti ráðherra dómsmála. Í ríkisstjórn, sem næstum ekkert má gera nema rjúfa þing, getur Vilmundur Gylfason ekki hreyft sig mikið í sambýlinu við Baldur Möller.

Sennilega munu þó flestir kjósendur átta sig á, að Alþýðuflokkurinn er ekki í ríkisstjórn til einhverra átaka, heldur aðeins til að gæta búðarinnar fram yfir kosningar. Engar kröfur verða gerðar til stjórnar, sem ekkert má gera.

Í ládeyðu þessarar viku hefur greinilega komið í ljós, að prófkjör hafa skotið rótum í starfi stjórnmálaflokkanna. Þau eru hefð, sem haldið er fast við, þrátt fyrir gífurlega erfiðleika, sem fylgja tímahraki.

Í flokkunum hefur ósleitilega verið unnið að breyttum prófkjörsreglum, er henti hinum stutta fyrirvara, svo og að skipulagi sjálfra prófkjaranna. Virðist svo sem þau verði í svipuðum mæli og fyrir síðustu kosningar.

Þessi hefð er ánægjuleg. Prófkjör eru eðlilegur þáttur lýðræðis innan stjórnmálaflokkanna á tímum lélegrar fundarsóknar og lélegrar annarrar þáttöku í félagsstörfum. Og prófkjör í tímahraki sýna, að þau eru orðin föst í sessi.

Síðari hluti þessa mánaðar verður prófkjörsmánuður. Víða verða margir kallaðir, en fáir útvaldir, svo sem gert er ráð fyrir í leikreglum lýðræðis. Þetta verður ágæt upphitun fyrir sjálfan kosningaslaginn í nóvember.

Vetur sækir því að með miklu stjórnmálafjöri. Hitt er svo annað mál, hvort stjórnmálaflokkarnir eru reiðubúnir að veita kjósendum skýra kosti að velja um. Margt bendir til, að svo sé ekki.

Mikill fjöldi kjósenda mun greiða atkvæði án neinnar trúar á, að þáttaka í kosningunum skipti neinu máli. Margir munu telja, að ný stjórn verði svipuð nýlátinni stjórn, næstu stjórn á undan henni og stjórninni þar á undan.

Íslenzk stjórnmálasaga er nefnilega stutt. Hún er svona: Því meira, sem hlutirnir breytast, þeim mun meira eru þeir eins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið