Lofsvert framtak

Greinar

Vélskólanemar sýndu lofsvert framtak, er þeir gerðu könnun á ástandi olíukyndingartækja og komust að raun um, að notendur slíkra tækja gætu samtals sparað sér nokkur hundruð milljóna króna á ári með réttri stillingu og nægum þrifnaði tækjanna.

Rannsókn þeirra var mjög tímabær á þessum tímum olíuokurs. Þjóðina munar vissulega um þann gjaldeyri, sem varið er í óþarfa innflutning á olíu til húsahitunar. Því miður vantar leið til að fá fólk til að hagnýta sér niðurstöðu vélskólanemanna. Ekki bætir úr skák, að olíustyrkurinn dregur úr áhuga manna á sparnaði á þessu sviði.

En framtak vélskólanemanna sýnir, hve mikils virði hugkvæmni er. Þjóðfélagið gæti sparað sér gífurlegar fjárhæðir, ef slík hugkvæmni réði ferðinni á sem flestum sviðum. Alþingi ætti að verðlauna upphafsmenn könnunar vélskólanemanna fyrir gott fordæmi og auka þannig um leið virðingu framtaks og hugvits.

Jónas Kristjánsson

Vísir