Lítt hæft til búskapar

Greinar

Áratugum saman hefur ríkisvaldið hér á landi stefnt að sem mestri eflingu innlends landbúnaðar. Þetta er gert með framkvæmdastyrkjum til bænda, uppbótum á útfluttar landbúnaðarafurðir, banni við innflutningi slíkra afurða, niðurgreiðslum á verði innlendra landbúnaðarafurða og með ýmsum öðrum framlögum, sem eru umfram greiðslur í þágu annarra atvinnuvega.

Þessi stefna stuðlar lítt að matvælaöryggi þjóðarinnar. Fiskurinn úr sjónum og innflutt matvæli, svo sem kornmatur, eru veigameiri þáttur í neyzlu Íslendinga en kjötvörur og mjólkurvörur. Og þessi hlutföll mundu breytast landbúnaðinum í óhag, ef niðurgreiðslurnar væru ekki og neytendur vissu þar af leiðandi, hvað innlendar landbúnaðarafurðir kosta í raun og veru.

Meðan ríkisvaldið ver 60 milljónum króna til viðskiptamála, 430 milljónum til iðnaðar, 950 milljónum til orkumála og 1068 milljónum til sjávarútvegs, ver það 6150 milljónum til landbúnaðar og niðurgreiðslna á afurðum hans. Þar á ofan heimta forustumenn bænda 1000 milljón króna niðurgreiðslur á verði áburðar. Af þessum tölum má sjá, að hlutur landbúnaðarins er óhóflegur, svo að ekki ná meira sagt.

Þjóðfélag í örri uppbyggingu þarf að geta notað eitthvað af þessum milljörðum til að auka innlenda orku, bæta samgöngur og efla þá atvinnuvegi, sem geta að meira eða minna leyti staðið undir sér sjálfir.

Alls staðar er nóg að starfa og næg verkefni fyrir takmarkað fjármagn þjóðarinnar. Það er of mikill skattur á fimm manna fjölskyldu að greiða 13.000 krónur á mánuði eða meira til landbúnaðarins fyrir utan búðarverð afurða hans.

Hagkvæmni landbúnaðarins er bezt mæld með samanburði við verð á hliðstæðum erlendum vörum. Íslenzk mjólk kostar óniðurgreidd 60-62 krónur, en dönsk mjólk 41-42 krónur. Íslenzkt dilkakjöt kostar óniðurgreitt í heilum skrokkum 430 krónur, en danskt nautakjöt og svínakjöt kostar um og innan við 300 krónur og hænsnakjöt er enn ódýrara. Enn meiri munur er á ostum og eggjum.

Í erlenda verðinu er innifalin álagning í heildsölu og smásölu, en flutningskostnaðinn til Íslands vantar. Ljóst er, að ekki borgar sig að flytja inn mjólk, þar sem hún er viðkvæm og erfið í flutningi. En flestar aðrar matvörur má flytja inn, sumar að einhverju leyti og aðrar að verulegu leyti.

Til þess að unnt sé að draga úr kostnaði skattgreiðenda við landbúnaðinn og flytja inn ódýrari afurðir þarf að breyta stefnunni í landbúnaðarmálum. Smám saman þarf að hætta að hvetja til stofnunar og stækkunar býla og fara hins vegar að hvetja bændur fjárhagslega til að bregða búi. Slíkar aðgerðir mega ekki koma niður á kjörum bænda og mega ekki gerast snögglega.

Ísland var aðeins landbúnaðarland fyrstu fjórar aldir sögu þjóðarinnar meðan gróðrinum var eytt. Síðan hefur þjóðin lifað á fiski og fiskvinnslu. Hér við heimskautsbaug er ekki unnt að stunda landbúnað við núverandi gróðurskilyrði, ef aðstæður eru bornar saman við suðlægari lönd.

Þessa staðreynd verðum við að viðurkenna og beina kröftum okkar að nýtilegri viðfangsefnum.

Jónas Kristjánsson

Vísir