Þegar þjóðhagsstofnunin hafði í sumar tekið út efnahagsástandið, ríkti almenn svartsýni á þróun lífskjara hér á landi. Öngþveitið stefndi þá í rúmlega 70% verðbólgu á árinu og í nokkuð atvinnuleysi eftir næstu áramót. Talið var þá, að stjórnvöld gætu hindrað þessa þróun með skipulegum aðgerðum, sem fælu það meðal annars í sér, að lífskjör yrðu svipuð og þau voru árið 1971
Þessar aðgerðir hafa nú flestar litið dagsins ljós. Útkoman er töluvert hagstæðari en menn óttuðust í haust. Lífskjörin þurfa ekki að hverfa til baka til ársins 1971, ef vinnufriður helzt. Þau geta verið svipuð og þau voru í fyrra. Að vísu er teflt á tæpasta vað í afkomu atvinnuveganna. En fórn þjóðarinnar er mjög lítil, ef það tafl lánast.
Ekki er ástæða til að ætla, að lífskjörin rýrni meira en þetta, þótt verðhækkanir kunni að verða meiri en ráð er fyrir gert í bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar. Þær umframhækkanir mundu verða bættar að fullu í kaupgreiðsluvísitölu í samræmi við ákvæði bráðabirgðalaganna. Þar með er tryggt, að endurreisn efnahagslífsins kostar ekki nema 7,5% almenna kjararýrnun og 5,3% rýrnun láglauna, hvort tveggja frá 1.ágúst í sumar.
Bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar eru því nokkru hagstæðari launþegum en tillögur Alþýðubandalagsins voru í tilraunum vinstriflokkanna til myndunar ríkisstjórnar í sumar.Þær tillögur voru birtar í Þjóðviljanum á sínum tíma og fólu í sér mun minni verndun láglauna en nú er orðin raunin á.
Það er von, að fólk óttist, að forustumenn stéttarfélaga stefni að afleikjum á næstu vikum. Þeir höfðu hægt um sig í vor og sumar, þegar gengið var látið leka, þegar verðlagi var með valdboði haldið óbreyttu og þegar kaupgreiðslu vísitalan var fryst. Nú láta hins vegar ófriðlega sumir þessara forustumanna og stefna að vinnu deilum, einkum í sjómannasambandinu, þótt komin sé hækkun á fiskverði, sem ekki fékkst í vor
Rétt er að benda á, að margir forustumenn stéttarfélaga átta sig vel á, að þjóðin á í varnarstríði í efnahagsmálunum og að lausnir bráðabirgðalaganna eru launþegum langtum hagstæðari en aðrar aðgerðir eða aðgerðarleysi. Enda var forustumönnum Alþýðusambandsins gefið tækifæri til að hafa áhrif á innihald laganna.
Þessi skilningur endurspeglast í ályktun Alþýðusambandsins á þriðjudaginn var. Þar kemur fram, að sambandið hafi náð fram ýmsum breytingum á bráðabirgðalögunum. Ennfremur er þar tekið fram, að kjaraskerðingin sé framhald fyrri skerðingar á tíma vinstristjórnarinnar. 0g loks segir í ályktuninni, að uppsögn kjarasamninga sé fyrst og fremst nauðsynleg vegna þess, að við ríkjandi aðstæður sé ekki hægt að hafa bundna samninga til vors 1976.
Með ályktuninni virðist Alþýðusambandið vera að draga úr þeirri skoðun, að eins konar stríðsyfirlýsing felist í uppsögn kjarasamninga. Vafalaust munu þó einstök félög, ekki sízt hátekjumanna eins og trésmiða, láta draga sig út í hörku og jafnvel vinnudeilur. Þessir hátekjumenn munu einnig að líkindum reyna að fá verkamenn til að gerast dráttardýr fyrir sig í kjaramálum eins og stundum áður.
Jónas Kristjánsson
Vísir