Lítið að marka þá.

Greinar

Furðulegt er, hve lítið er stundum að marka valdamenn í þessu þjóðfélagi. Blaðamenn Dagblaðsins hafa á þessu sumri hvað eftir annað rekið sig á, að varasamt er að treysta orðum þessara manna. Þeir segja það, sem þeim dettur í hug án tillits til sannleiksgildis þess.

Stundum virðist hrein hentistefna ráða þessari ósannsögli. Valdamennirnir vilja víkja sér undan því að svara alvarlegum spurningum og leita fremur á náðir ímyndunaraflsins. Virðist svo sem þeim sé nokkuð sama um, þótt síðar komi í ljós, að þeir hafi gefið rangar upplýsingar til almennings í fjölmiðlum.

Í Íeiðara Dagblaðsins á föstudaginn voru rakin tvö dæmi um ósannsögli ráðherra í blaðaviðtölum í ágúst. Frjálslyndi ráðherra í meðferð sannleikans á opinberum vettvangi er sérstaklega alvarlegt, því að það sýnir megna fyrirlitningu kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á umbjóðendum sínum.

Svo virðist þó, eftir úrklippusaíni Dagblaðsins að dæma, að æðstu embættismenn þjóðarinnar gefi stjórnmálamönnunum síður en svo nokkuð eftir á þessu sviði. Verða hér rakin lauslega þrjú slík dæmi af ótal mörgum frá liðnu sumri.

Hinn 12. maí skýrði Dagblaðið frá því, að Sveinbjörn Bjarnason, prestur í Skotlandi, hygðist ekki taka við embætti að Mosfelli. Vissi blaðið, að á skrifstofu biskups var mönnum kunnugt um fráhvarf Sveinbjarnar.

Í viðtali við Dagblaðið sagði biskupsritari, að biskup vissi ekki annað en, að von væri á Sveinbirni á næstunni eins og gert hefði verið ráð fyrir. Embættið vissi ekkert um, hvað tefði prestinn.

Hinn 12. júlí skýrði Dagblaðið fyrst blaða frá því, að Vestur-Þjóðverjinn Schütz hefði verið ráðinn til rannsóknastarfa í Sakadómi. Daginn eftir sagði Halldór Þorbjörnsson yfirsakadómari í Vísi, að í frétt Dagblaðsins hafi “gætt mikillar ónákvæmni og fréttin verið villandi”.

Síðan hefur komið í ljós, að hvert einasta atriði fréttar Dagblaðsins var rétt. Um tíma var talið, að ranglega hefði verið sagt, að Schütz hefði farið utan með sönnunargögn til rannsóknar. Nú er hins vegar ljóst af fréttum, að þetta gerði maðurinn, nákvæmlega eins og Dagblaðið sagði, þrátt fyrir yfirlýsingu yfirsakadómara.

Hinn 11. ágúst tjáði Jón Skúlason póst- og símamálastjóri Dagblaðinu í óspurðum fréttum, að símagjöld væru tiltölulega ódýr hér á landi. Hann sagói: “Svíþjóð er sennilega ódýrast Norðurlandanna hvað varðar símann. Þar kostar þriggja mínútna samtal um 50 km vegalengd sem svarar 25 krónum íslenzkum, hjá Norðmönnum kostar svipað samtal 90 krónur, en um 30 krónur hér heima.

Hér gaf embættismaðurinn í skyn, að sími væri þrefalt dýrari Í Noregi en hér. Hitt er svo annað mál, að 50 km samtal í þrjár mínútur kostar engar 30 krónur hér á landi, heldur 112,50 krónur.

Hugarfarið á bak við slíka upplýsingamiðlun embættismanna og ráðherra er án efa hættulegt. Þessi framkoma hlýtur að grafa undan sjálfsviróingu þeirra, sem blekkingum beita, og bjóða heim margvíslegri spillingu.

Valdamenn eiga að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið