Ríkisstjórnin hefur sjóazt hratt að undanförnu. Hún hefur komizt gegnum brotsjói, sem ýmsir töldu mundu ríða henni að fullu. Svo gæti jafnvel farið, að hún stígi ölduna út kjörtímabilið, þótt hættulegri brotsjóir séu framundan.
Fyrirhugað kauprán 1. desember er þyngsta þrautin, sem ríkisstjórnin hefur glímt við. Í því máli kom greinilega í ljós, hversu ósamstæðir stjórnarflokkarnir eru. Samt tókst skipstjóranum að halda aga á áhöfn sinni. Ríkisstjórnin lifir enn.
Að vísu var hluti vandans leystur á þann hátt, að honum var velt yfir á fjárlögin, sem verða næsti brotsjór á siglingu ríkisstjórnarinnar. Sá brotsjór verður enn krappari en hinn, sem nú er afstaðinn.
Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra kann lagið á skipstjórn við þessar aðstæður. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af, hvar landi verður náð eða hvort landi verður náð. Hann er bara í því að halda skútunni á floti.
Hann ragar ekki um áttina, sem siglt er í. Hún getur verið ein í dag og þveröfug á morgun. Markmið hans er að halda stjórninni saman. Samkomulag skal nást og skiptir þá litlu, um hvað það næst.
Þess vegna tranar Ólafur ekki skoðunum sínum fram, né skoðunum flokks síns. Þess vegna kúvendir hann einu sinni eða oftar í viðkvæmum málum, ef hann telur sig þannig geta haldið aga á skipshöfn sinni.
Fyrstu tillögur Framsóknarflokksins í vísitölumálinu voru svipaðar tillögum Alþýðuflokksins. Ólafur skipti hins vegar um skoðun, þegar hann var búinn að kanna hug forustumanna launþegasamtaka.
Síðan stillti Ólafur Alþýðuflokknum upp við vegg og sagði: Ætlið þið einir að standa gegn samkomulagi í ríkisstjórninni og vinnufriði í þjóðfélaginu? Sömuleiðis hótaði hann að setja málið á flot án samkomulags við Alþýðuflokkinn.
Niðurstaðan varð sú, að Alþýðuflokkurinn brotnaði, en ríkisstjórnin ekki. Það er ekki í fyrsta skipti, sem Alþýðuflokkurinn fer halloka í ríkisstjórninni. Oft hefur hann haft skynsamlegastan málstað innan stjórnar og jafnoft hefur hann beðið lægri hlut.
Þessar fórnir eru Alþýðuflokknum ekki kostnaðarlausar. Margir kjósendur hans eru vafalaust orðnir hvítglóandi um þessar mundir. En af hverju datt þeim líka í hug að trúa stjórnmálamönnum? Er reik Alþýðuflokksins ekki bara hæfileg refsing fyrir óhóflega einfeldni í röðum kjósenda?
Alþýðubandalagið er betur á sig komið eftir sigurinn á endaspretti vísitölumálsins. Það hefur bætt stöðu sína í samtökum launþega, þótt niðurstaða málsins feli í sér kauprán, sem er hjúpað slitnum og þunnum blekkingavef.
Sjálfsagt kemur fljótt röðin að Alþýðubandalaginu að fórna öðru. Sáttasemjarinn og bragðarefurinn, sem stendur við stjórnvölinn, þarf sjálfsagt að dreifa fórnunum á alla hópa áhafnarinnar, svo að þeir séu allir jafn óánægðir, en enginn þeirra segi sig úr skipsrúmi.
Við slíkar aðstæður er gott að hafa að baki sér stjórnmálaflokk, sem ekki er aðeins opinn í báða enda, heldur í allar áttir. Slíkum flokki hentar líka vel lipur skipstjóri, sem ekki stefnir að neinni sérstakri höfn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið