Linur krókur á móti bragði

Greinar

Ef til vill megum við vænta þess, að tollgæzla og lögregla fari að þjálfa sérstaka gerhunda til að þefa af bréfum, farangri og varningi frá útlöndum. Ef til vill megum við vænta sérstakra gerdeilda hjá tollgæzlu og lögreglu og sérstaks gerefnadómstóls við hlið fíkniefnadómstólsins.

Fjármálaráðuneytið vill stöðva fríverzlun með gersveppi. Það vill afhenda Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins einkarétt á sölunni og takmarka hana við blautger og perluger til brauðgerðar. Yrði þá ekki á boðstólum neitt löglegt ger til bruggunar víns og öls.

Því miður fyrir fjármálaráðuneytið er ger afar þægilegt í flutningi. Menn geta látið senda sér það innan í bréfum. Og menn geta beitt sömu hugvitsamlegu brögðum og flytjendur fíkniefna. Bannið eitt nægir ekki til að draga úr innflutningi gers.

Þar á ofan eru gersveppir auðræktanlegir og langlífir. Þess vegna má búast við umfangsmiklum skiptum og verzlun milli manna innanlands til viðbótar hinum ólöglega innflutningi. Hver yrði þá árangur fjármálaráðuneytisins?

Bann við öl- og víngeri er marklaust, nema settar verði á stofn fjölmennar sveitir lögreglu- og tollgæzlumanna, þefvísra hunda og dómara til að fást við þúsundir þrjózkra og úrræðagóðra bruggara.

Hugmynd fjármálaráðuneytisins er fáránleg. Hún dregur hvorki úr áfengisneyzlu né eykur hún tekjur ríkisins af hinni sömu neyzlu. Hins vegar eykur hún ríkisútgjöld að marki.

Mun vitlegra væri að setja háa tolla á efni til bruggunar og reyna á þann hátt að bæta ríkinu upp hinn mikla tekjumissi, sem stafar af fækkun viðskiptavina Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins.

Háir tollar mundu að vísu leiða til smygls á sama hátt og er nú á tóbaki og áfengi. En smyglið yrði samt ekki nema brot af því, sem fylgja mundi í kjölfar banns. Flestir mundu fremur vilja lögleg viðskipti, þótt gerið væri þeim töluvert dýrara en áður.

Auðvitað er hægt að ofbjóða mönnum á þessu sviði eins og öðrum. Við höfum einmitt nýlegt dæmi um, að ríkisvaldið hefur ofboðið viðskiptavinum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins með tveimur 20% verðhækkunum á einu sumri.

Svo virðist sem mánaðarlega vanti um 300-400 milljónir króna upp á, að ríkið fái þær tekjur af áfengi, sem það hafði vænzt eftir hækkanir sumarsins. Þetta sýnir, að verðlag áfengis er komið yfir þau mörk, sem menn sætta sig við.

Samdrátturinn í viðskiptum við ríkið stafar ekki af minni áfengisneyzlu, heldur af meiri bruggun. Þeim fjölgar ört, sem eru hættir að skipta við ríkið og fá sitt öl og vín á annan hátt. Þannig nær litli maðurinn sér niðri á óhóflega gráðugu kerfi.

Það er raunar fagnaðarefni, að menn skuli hafa aðstöðu til að bjóða birginn hinu gráðuga ríkisvaldi. Við getum líka verið viss um, að fjármálaráðuneytinu tekst ekki að láta koma krók á móti bragði með hugmyndinni um bann við öl- og víngerlum.

Hugmyndafræðingar fjármálaráðuneytisins ættu nú að fara yfir bók Orwells, “1984” og gera eftir henni skrá um það, sem enn er eftir að banna á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið