Lífræn útivistarsvæði

Greinar

Almenningsgarðar Reykjavíkur koma ekki að fullu gagni, ef borgarbúar nota þá ekki. Miklatún er dæmi um þetta. Grasið og trén gera slíkan garð að augnayndi, en nægja ekki til að gæða hann lífi.

Þess vegna er það eitt meginatriðanna í umhverfis- og útivistaráætlun Birgis Ísleifs Gunnarssonar borgarstjóra, að í almenningsgörðum og á öðrum útivistarsvæðum borgarinnar verði komið upp margvíslegri aðstöðu til frístundaiðju.

Gert er ráð fyrir því, að komið verði upp aðstöðu til íþróttafólks á öllum aldri utan svæða íþróttafélaganna og að frjáls aðgangur verði að þessari aðstöðu.

Sem dæmi um þetta má nefna sparkvelli, körfubolta- og blakvelli, hjólreiða- og hjólaskautabrautir, hlaupabrautir og stökkgryfjur, sleðabrekkur og skautasvell.

Í Laugarnesi á að verða golfvöllur, opinn almenningi, en einnig er gert ráð fyrir stökum brautum til æfinga á grasflötum víðs vegar um borgina. Minigolf er fyrirhugað á Miklatúni og ef til vill víðar, ef reynslan verður góð. Tennisvöll með búningsklefum er ráðgert að gera við Álfheima og ef til vill víðar síðar, ef aðsókn verður góð.

En fleira er frístundaiðja en íþróttir. Samkvæmt áætluninni á að fjölga starfsvöllum,.þar sem börn og unglingar geta fengizt við smíðar og aðra hliðstæða iðju. Ennfremur er fyrirhugað að koma upp leiktækjum á útivistarsvæðunum og hafa hugmyndasamkeppni um gerð þeirra.

Tjaldstæði verða ætluð börnum til þess að þau geti verið þar daglangt með tjöld í nágrenni heimila sinna. Kaffihús og pylsustaðir eru eitt af því, sem gera á svæðin fýsileg til heimsókna.

Ennfremur er ákveðið að undirbúa tilraun til að koma upp Tívolí, til dæmis við Árbæ, Rekstrargrundvöllur hefur ekki verið kannaður, en ljóst er, að borgarbúum hefur fjölgað mjög, síðan gamla Tívolí var reist og rekið af vanefnum í Vatnsmýrinni.

Gert er ráð fyrir, að listamenn verði fengnir til að laða fólk að útivistarsvæðunum með hljóðfæraleik, dansi, söng, leiksýningum og listsýningum. Ennfremur verði listiðnaðarmönnum boðin aðstaða til starfa í húsum Árbæjarsafns gegn því, að borgarbúar geti heimsótt vinnustofur þeirra.

Ekki má gleyma bátaaðstöðunni, sem er veigamikill þáttur í áætluninni. Bæta á aðstöðu lítilla seglbáta í Nauthólsvík og koma upp hliðstæðri aðstöðu norðan Geldinganess. Stóru seglbátarnir eiga að fá aðstöðu sunnan Geldinganess og sömuleiðis vélknúnir sportbátar. Jafnframt er ráðgert að bæta mjög aðstöðu fyrir fiskitrillur í Reykjavíkurhöfn.

Þetta er ekki tæmandi skrá um allt, sem ráðgert er að gera til að efla útilíf Reykvíkinga. Í ráði er að halda í vor sýningu á hugmyndum þeim, sem koma fram í áætluninni, og reyna í framhaldi af því að koma upp áhugahópum um nýtingu útivistarsvæðanna. Jafnframt er fyrirhugað að efna til hugmyndasamkeppni um hönnum ýmissar þeirrar aðstöðu, sem þarf að vera á þessum svæðum.

Tíu ára áætlunin um útivist og umhverfi borgarbúa stefnir að .fegrun borgarinnar og heilsusamlegu og fjörugu borgarlífi.

Jónas Kristjánsson

Vísir