Leynigögn og leki

Greinar

Fjögur leynigögn eru meðal mikilvægustu skjalanna í viðræðunum um framtíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þessi gögn eru þess eðlis, að birting þeirra mundi auðvelda almenningi að byggja skoðanir sínar á varnarmálunum á traustum grunni.

Fyrst skal fræga telja tillögu Einars Ágústssonar og meirihluta framkvæmdastjórnar Framsóknarflokksins um, hvernig megi halda ríkisstjórninni saman á kostnað öryggis landsins.

Annað skjalið er tillaga Bandaríkjastjórnar um ýmsar athyglisverðar breytingar á vörnum landsins, þar á meðal aukna þátttöku Íslendinga í störfum á vegum varnarliðsins.

Hið þriðja er hreinskilið bréf norsku ríkisstjórnarinnar til hinnar íslenzku um áhyggjur hennar af þróun varnarmálanna á Íslandi.

Fjórða skjalið er álitagerð Atlantshafsbandalagsins, sem ríkisstjórnin óskaði eftir á sínum tíma.

Stjórnarliðið hefur meira og minna lekið upplýsingum um innihald þessara skjala. Þessi leki var í smáum stíl, unz Hannibal Valdimarsson alþingismaður rakti efni tillagna Bandaríkjastjórnar á stjórnmálafundi á Ísafirði. Síðan kom Einar Ágústsson og bætti um betur með því að segja fréttir í sjónvarpi af tillögu sinni og meirihluta framkvæmdastjórnar Framsóknarflokksins.

Stjórnarandstæðingar óskuðu eftir því á þingi í gær, að gögn þessi yrðu birt, svo að skoðanamyndun almennings þyrfti ekki lengur að byggjast á hálfyrðum og sögusögnum. Öryggismál þjóðarinnar væru of mikil alvörumál til þess, að við svo búið mætti lengur standa.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra höfnuðu þessum tilmælum að sinni. Samt hefur utanríkisráðherra sjálfur sagt undan og ofan af efni sinnar eigin tillögu á opinberum vettvangi. Þetta er óheiðarleg framkoma. .Annað hvort á utanríkisráðherra ekki að segja neitt eða leyfa fulla birtingu tillögu sinnar, en ekki vera sjálfur með sögusagnir um efni hennar.

Þar á ofan hefur utanríkisráðherra verið með dylgjur í garð Norðmanna út af afskiptum þeirra af málinu. Samt segja þeir í bréfi sínu, að þeir vilji ekki blanda sér í íslenzk málefni. Þeir hafi hins vegar ekki viljað, að sjónarmið norsku fulltrúanna í Atlantshafsbandalaginu kæmu íslenzku ríkisstjórninni á óvart. Þess vegna hafi norska stjórnin kosið að senda hinni íslenzku þessi sjónarmið sín fyrir umræðurnar í bandalaginu.

Varnarmálin eru nú í brennidepli íslenzkra stjórnmála. Annars vegar hlaðast upp áskorunarlistar gegn ótímabærri brottför varnarliðsins. Og hins vegar herða hernámsandstæðingar sína baráttu um allan helming. Á sama tíma liggur ríkisstjórnin á mikilvægustu leyniskjölunum og reynir jafnframt að hafa áhrif á skoðanamyndun almennings með því að leka vissum þáttum þessara skjala en ekki öðrum.

Verið getur, að ríkisstjórnin geti haldið sér í sessi með skipulögðum leka. En slík málsmeðferð mun um síðir koma henni í koll, því að almenningur telur sig eiga skýlausan rétt á að vita, hvað er verið að bralla með öryggismál þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir