Leyndarmál kerlingar

Greinar

“Ég ætla ekki að segja þér frá því, að hún Sigga er farin að vera með Jóni”, er haft eftir kerlingu nokkurri, sem þurfti að varðveita leyndarmál. Eins er utanríkisráðherra okkar farið. Hann sendi í dag til Haag-dómstólsins bréf um, að ríkisstjórnin kæri sig ekki um að senda þangað málskjal með röksemdum Íslendinga í landhelgismálinu. En bréfið sjálft er málskjal, fullt af ábendingum og tilvísunum, málstað okkar til varnar.

Í bréfi Einars er bent á, að hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafi verið kvödd saman og hafi ekki enn lokið störfum. Þetta er ábending til alþjóðadómstólsins um, að gögn þau, sem honum beri að dæma eftir, séu ekki enn orðin til.

Í bréfi Einars er líka á bent á ýmsar alþjóðlegar samþykktir til stuðnings víðáttumikilli efnahagslögsögu í hafinu, svo og á almennt fylgi ríkja heims við 200 mílna efnahagslögsögu. Loks er í bréfinu skýrt frá samningnum við Breta og viðræðunum við Vestur-Þjóðverja.

Eftir að hafa lesið þennan málflutning bréfsins er óneitanlega dálítið broslegt að lesa í niðurlaginu, að ekki komi til mála, að ríkisstjórn Íslands afhendi málskjal. Þessi aðferð er fremur framsóknarleg, opin í báða enda. Ríkisstjórnin segist ekki senda málskjal og sendir það samt.

Verið getur, að kerlingin, sem getið er hér að framan, hafi talið sig komast vel frá gæzlu leyndarmálsins. En ætli það sé ekki heppilegra í alþjóðamálum að gera það vel, sem menn gera á annað borð? Ríkisstjórnin átti kost á að halda sér annað hvort fast við fyrri stefnu og hunza dómstólinn eða að fallast á röksemdir sjálfstæðismanna um, að ítarlegur málflutningur væri æskilegur. En hún kaus að fara bil beggja, svo að úr varð hvorki fugl né fiskur.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í utanríkisnefnd lögðu í gær til, að greinargerð yrði send til Haag og teknir þeir frestir í málinu, sem með þyrfti. Síðara atriðið er ekki síður mikilvægt, því að alltaf er sú hætta á ferðum, að dómstóllinn taki ekki tillit til þess, að mikil stefnubreyting í landhelgismálum er væntanleg á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Því lengra fram á ráðstefnu, sem hægt er að tefja málið í Haag, þeim mun minni líkur eru á, að dómstóllinn treysti sér til að kveða upp úrskurð fyrr en niðurstaða ráðstefnunnar er fengin.

Alkunnugt er, að hafréttarráðstefnan er lykillinn að sigri málstaðar okkar. Það stappar því nærri landráðum af hálfu ríkisstjórnar okkar að gernýta ekki alla möguleika til frestunar Haag-málsins, unz tryggt sé, að dómstóllinn byggi á niðurstöðu ráðstefnunnar.

Þetta vítaverða aðgerðaleysi byggist fyrst og fremst á því, að ríkisstjórnin vill í barnaskap sínum ekki láta það um sig spyrjast, að hún fari að ráðum stjórnarandstöðunnar. Hún veit hins vegar, að það eru skynsamlegar ráðleggingar, svo að hún fór bil beggja eins og kerlingin. En þannig er bara ekki hægt að vinna mikil alvörumál.

Jónas Kristjánsson

Vísir