Leyndarhefð grunnmúruð

Greinar

Gamall draugur hefur enn einu sinni birzt á alþingi. Það er frumvarp til laga um takmarkanir á aðgangi að upplýsingum hjá opinberum stofnunum. Í þetta sinn hefur draugurinn ekkert verið mildaður, heldur fluttur orðrétt óbreyttur frá síðasta þingi.

Steingrímur Hermannsson dómsmálaráðherra hefur erft þetta vandræðamál frá fyrirrennara sínum, Ólafi Jóhannessyni, sem er búinn að reyna í átta ár að gera frumvarp af þessu tagi að lögum. Enn hefur það ekki tekizt og vonandi gengur Steingrími ekki betur.

Ólafur Jóhannesson tók örlítið mark á gagnrýni, sem frumvarp hans sætti, og lét endurbæta það lítillega. Brá hann á það lúmska ráð að setja þáverandi formann Blaðamannafélags Íslands, Einar Karl Haraldsson, í nefnd með tveimur kerfiskörlum til að laga frumvarpið.

Þar með var Ólafur búinn að gera blaðamannastéttina samseka í viðleitninni við að binda hendur blaðamanna við að afla upplýsinga og koma þeim til almennings. Samt tókst honum ekki að gera frumvarpið að lögum á síðasta þingi.

Þess vegna höfðu menn búizt við, að Steingrímur léti aftur laga frumvarpið, áður en það yrði lagt fram á þessu þingi. Það veldur verulegum vonbrigðum, að frumvarpið hefur nú verið flutt og rætt gersamlega óbreytt frá síðasta þingi.

Enn sem fyrr gerir frumvarpið ráð fyrir, að félagsmálaráðherra segi síðasta orðið um, hvað séu opinber leyndarmál og hvað ekki. Úrskurði hans verður ekki áfrýjað. Geðþótti ráðherra á að ráða eins og fyrri daginn. Réttarbót frumvarpsins er því engin, þegar til kastanna kemur.

Fremur óáþreifanleg er svokölluð upplýsingaskylda, sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Að vísu setur það fram upplýsingaskyldu sem almenna reglu. En undantekningarnar eru svo margar og loðnar, að kerfiskarlar verða ekki í nokkrum vandræðum með að skjóta sér á bak við þær.

Þeir gætu, ef það hentaði þeim, haldið því fram, að fjárlagafrumvörp væru leyndarmál, samkvæmt sjötta lið fjórðu greinar um fyrirhugaðar ráðstafanir í fjármálum ríkisins. Þeir gætu jafnvel haldið því fram, samkvæmt fyrsta lið sömu greinar, um öryggi ríkisins, að það væri leyndarmál, hverjir séu ráðherrar.

Allt er þetta í samræmi við hina miklu óbeit, sem íslenzkir kerfiskarlar hafa á afskiptum almennings af gerðum þeirra. Þeim finnst óbærilegt að hugsa til þess skorts á vinnufriði, að almenningur sé með nefið niðri í málum, sem þeir fjalla um.

Höfundum frumvarpsins, hafði verið bent á, að vestur í Bandaríkjunum hafa í sumum ríkjum verið sett lög, sem ganga í öfuga átt og eru í takt við hugmyndir nútímamanna um opið stjórnkerfi. Þessi svonefndu sólskinslög skara langt fram úr hliðstæðum lögum á Norðurlöndum, sem eru gömul, formleg og erfið í framkvæmd.

Í sólskinslögum er fjallað um rétt manna til að sitja fundi opinberra stjórna, ráða og nefnda og vera í stóru og smáu vitni að hverju þrepi ráðagerða, stefnumörkunar og ákvarðana hins opinbera. Samkvæmt þeim eru leynifundir til undirbúnings opnum fundum ólöglegir og refsiverðir.

Bandaríkjamenn lærðu sína lexíu í Watergate. Íslenzkir kerfiskarlar vilja enga slíka lexíu læra, heldur reyna með lögum að grunnmúra leyndarhefðina og hafa Blaðamannafélagið að fífli í leiðinni!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið