Fróðlegt hefur verið að fylgjast með þingmönnum okkar síðustu vikurnar. Þar hafa margir beygt sig í duftið, sem áður þóttust mundu láta sannfæringu sína eina ráða.
Í samsteypustjórnum þriggja flokka þurfa allir að slá eitthvað af, svo að friður megi haldast. Engin skömm er að því að víkja frá yfirlýstri stefnu, ef það er í hófi.
Alþýðuflokkurinn hefur undanfarnar vikur verið helzta fórnardýr stjórnarsamstarfsins. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og ríkisfjármálum hafa að flestu leyti gengið í berhögg við yfirlýsta stefnu flokksins.
Flestir þeir, sem utan við standa og á horfa, eru sammála um, að meðferð ríkisstjórnarinnar á Alþýðuflokknum hafi keyrt úr hófi fram í efnahagsmálafrumvarpinu.
Ráðherrar Alþýðuflokksins og Vilmundur Gylfason létu sér nægja bókun um harm sinn út af niðurstöðu ríkisstjórnarinnar. Jafnframt lýstu þeir yfir, að þeir mundu styðja efnahagsmálafrumvarp ríkisstjórnarinnar, þótt vont væri.
Það kemur ekki á óvart, þótt ráðherrar Alþýðuflokksins séu linir og geti ekki att kappi við ráðherra hinna stjórnarflokkanna og sízt við bragðarefinn í forsætisráðherraembættinu. Þessi linka hafði áður komið fram á ýmsum sviðum.
Hitt er athyglisverðara, að Vilmundur Gylfason skuli vera kominn í hóp þeirra, sem láta bjóða sér næstum hvað sem er, svo að stjórnarsamstarfið megi haldast. Margir hefðu búizt við meira beini í því nefi.
Annar þingmaður Alþýðuflokksins hefur tekið upp merki flokksreisnar og sjálfstæðrar hugsunar. Það er ekki einn af ungu, reiðu mönnunum, heldur einn hinna, sem áður höfðu setið á þingi fyrir flokkinn.
Bragi Sigurjónsson, forseti efri deildar alþingis, stóð upp í fyrradag og sagði m.a.: “Ég vil ekki teljast samstarfstákn í forsetastóli ríkisstjórnarflokka, sem ekki hafa kjark né þrek til að marka og koma sér saman um þannig úrlausnarstefnu í verðbólguvanda þjóðarinnar, að til vafalausra úrbóta horfi, né heldur nýta þann fórnar- og samstarfsvilja, sem ég tel, að nú hafi verið fyrir hendi meðal almennings til að ráðast gegn þeim vágesti.”
Einnig sagði hann: “Frumvarp það, sem nú hefur verið ákveðið í ríkisstjórninni að bera fram á alþingi sem vopn gegn verðbólgu, er að mínum dómi bitlaust og auk þess rangsleitið. Það beinist fyrst og fremst að launþegum …”
Niðurstaða Braga var þessi: “Ég vil ekki vera samstarfstákn slíks leiks og slíkra vinnubragða. Því segi ég af mér forsetastarfi þessarar deildar …”
Efnislega hefur Bragi alveg á réttu að standa. Efnahagsmálafrumvarp ríkisstjórnarinnar er helber della. Það vita margir fleiri en Bragi, líka þeir, sem hafa aðstöðu til að láta að sér kveða. En hann einn tók afleiðingunum af skoðun sinni.
Að því leyti sýnir hann meiri manndóm en margir aðrir, sem telja frumvarpið fávíslegt, en láta samt reka sig til réttar.
Ríkisstjórn, sem má eiga von á slíkum aðgerðum, fer næst varlegar í sakirnar en stjórn, sem telur sig geta beygt alla stjórnarþingmenn í duftið. Sá, sem kennir slíka lexíu í verki, gerir töluvert gagn.
Og nú veit alþjóð, að sjálfstæðri hugsun bregður fyrir á þingi. Hugsunin kom ekki úr þeirri átt, sem menn bjuggust við. En þá kom hún bara úr annarri átt. Því ber að fagna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið