Léleg kjör alþýðu

Greinar

Óvenjumiklir flokkadrættir voru undanfari þings Alþýðusambands Íslands, sem nú stendur yfir. Annars vegar er um að ræða deilur meðal alþýðubandalagsmanna um afstöðuna til sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á þinginu. Og hins vegar er um að ræða óánægju fulltrúa láglaunafólks með of lítinn hlut þess í árangri starfa Alþýðusambandsins.

Þessar tvær hreyfingar, sem eru óháðar hver annarri, munu vart ná miklum árangri á þessu þingi. Valdakerfið í Alþýðusambandinu mun væntanlega haldast óbreytt. Enda verður vart séð, að sambandið hafi nokkurn hag af því, að stuðningsmenn ákveðinna stjórnmálaflokka séu útilokaðir frá áhrifastöðum í sambandinu. Þjóðstjórnarkerfið í Alþýðusambandinu hefur að mörgu leyti gefizt vel og hafið Sambandið yfir flokkspólitíska gagnrýni.

Hitt er svo alvarlegra mál, hversu mjög hlutur láglaunafólks hefur verið fyrir borð borinn í samningum Alþýðusambandsins við vinnuveitendur. Hin svonefndu uppmælingafélög eru öflug í stjórn sambandsins, meðan verkafólksfélögin njóta ekki hins mikla fjölda félagsmanna sinna. Hin síðarnefndu ættu að hafa fleiri fulltrúa í æðstu ráðum Alþýðusambandsins.

Lág laun á Íslandi eru orðin helmingi lægri en lág laun í nágrannalöndunum. Þetta alvarlega ástand stafar þó ekki af auknum launamismun hér á landi í samanburði við nágrannalöndin. Lengd launastigans er ekki vandamálið, heldur hve neðarlega neðstu þrepin eru. Og ástandið stafar ekki heldur af óeðlilegu hlutfalli tekna launafólks og hagnaðar fyrirtækja í þjóðarbúskapnum, því að það er launafólki í hag, ef borið er saman við nágrannalöndin.

Það skiptir félagsmenn Alþýðusambandsins miklu máli, að fundnar verði orsakir láglaunakerfisins á Íslandi. Og öllum má vera ljóst, að orsakanna er að leita í þjóðfélagskerfinu sjálfu. Í leiðurum Dagblaðsins hefur því verið haldið fram, að tvö atriði skipti þar mestu máli, forréttindi landbúnaðar og óhófleg sókn á fiskimiðin.

Þjóðfélagið ber gífurlegan kostnað af útgerð tvöfalt fleiri veiðiskipa en nauðsynlegt er til að ná því aflamagni, sem veiða má. Þetta ástand skaðar þjóðfélagið um fjölmarga milljarða króna á ári hverju. Með uppboði veiðileyfa og minnkun flotans um helming má leysa þennan vanda.

Þjóðfélagið ber sömuleiðis gífurlegan kostnað af forréttindum landbúnaðar í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Þessi forréttindi nema nokkrum milljörðum króna á ári hverju. Með samdráttarleið þeirri, sem bent er á í nýútkominni skýrslu frá Rannsóknaráði ríkisins, má slaka á þessum vanda.

Alþýðusambandið þarf að reyna að brjóta atriði sem þessi til mergjar. Það þarf að reyna að finna hinar raunverulegu forsendur, sem liggja að baki þess, hve léleg eru kjör alþýðu á Íslandi. Það eru slíkar kerfisforsendur, sem valda því, að hjón verða bæði að vinna úti fullan vinnudag fyrir helztu lífsnauðsynjum.

Vandinn er ekki sá, að uppmælingarmenn né atvinnurekendur hirði arðinn af starfi láglaunafólks, heldur sá, að fjármagni þjóðarinnar er kerfisbundið sáldrað út í vindinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið