Skiljanlegt er, að skólastjórar vilji draga athygli manna frá skólunum, þegar rætt er um þau vandamál unglinga og foreldra þeirra, sem á þessum vetri hafa einkum verið tengd svonefndu Hallærisplani. Það kemur því ekki á óvart, að í fréttum af almennum foreldrafundi er haft eftir skólastjóra, að um sé að nokkru leyti að kenna “öfugsnúnum fjölmiðlum”.
Sannleikurinn er þó sá, að enginn aldursflokkur í þjóðfélaginu hefur jafnlítil not af fjölmiðlum og einmitt unglingar á Hallærisplansaldri. Yngri börn horfa þó tíðum á sjónvarp, jafnvel á fræðsluþætti. Og blaðalestur hefst ekki að ráði fyrr en menn eru komnir út í atvinnulífið.
Á hinum umrædda aldri horfa unglingar lítið á sjónvarp og líta varla í blöð. Sé svo litið sérstaklega á þann mikla minnihluta hópsins, sem vandamálin eru tengd, þá gerir hann næstum ekkert af því að notfæra sér lestrarkunnáttu sína. Afnotin af fjölmiðlum takmarkast í því tilviki við hlustun á nokkra tónflutningsþætti útvarps og lestur skemmtanaauglýsinga í blöðum.
Það er viðurkennd staðreynd, að áliti sérfræðinga, að fjölmiðlar hafa sáralítil áhrif á þennan aldursflokk. Sá hluti hans, er tengist svokölluðu unglingavandamáli, hefur losað sig undan áhrifum foreldra og skóla og er ekki enn kominn á áhrifasvið fjölmiðla og stjórnmála. Þessi hluti er einangraður á áhrifasvæði hópsins, jafnaldranna, félaganna, klíkunnar.
Segja má, að fjölmiðlar, eins og skólar, leggi ekki nógu hart að sér við að nálgast þessa einangruðu og fámennu stétt. Finnst mörgum þó nóg um, hversu mikið er poppað í fjölmiðlunum öllum, blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Einnig má telja líklegt, að meira efni af því tagi mundi einkum verða notað af þeim unglingum, sem ekki taka þátt í umræddu vandamáli.
Allir þeir, sem fást við æskulýðsmál, reka sig á sama vegginn. Þeir ná aðeins til þeirra, sem geta hjálpað sér sjálfir. Það eru unglingarnir, sem standa sig vel í skólum, sem stunda íþróttir, skátun, kristni, skák og klúbbun af ýmsu tagi. Hinir, sem þurfa aðstöð, koma ekki og fara í þess stað um í flokkum.
Auðvitað eru fjölmiðlar “öfugsnúnir” frá sjónarmiði þeirra, sem vilja, að einungis sé fjallað um hið góða og fagra, sem glitrar á næfurþunnri skikk.ju þjóðfélagsins. Í gamla daga var sögumönnum refsað fyrir að flytja þjóðhöfðingjum slæm tíðindi. Sorpið í þjóðfélaginu, sem fjölmiðlar eru stundum að pota í, er ekki nema Iítið brot af því sorpi, sem raunsæir borgarar ættu að kynna sér betur.
Ef unglingar af Hallærisplaninu læsu fréttir af stórpólitískum glæpamálum í þjóðfélagi okkar, væru þeir ekki á planinu, heldur á götuvígjum baráttu fyrir þjóðfélagslegri og pólitískri siðvæðingu. Vandamál Hallærisplansins er ekki fjölmiðlum, allra sízt hinum “öfugsnúnu”, að kenna, né er þeim að þakka sú staðreynd, að flestir unglingar hafa ekki slík vandamál.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið