Landhelgisdeilan við Breta stendur í þráskák um þessar mundir. Hvorugur hefur betur á miðunum. Varðskipunum tekst endrum og eins að klippa togvíra brezkra togara. Brezku herskipunum og dráttarskipunum tekst líka endrum og eins að laska varðskipin.
Þessi þráskák er okkur óhagstæð, þar sem við höfum teflt til vinnings. Jafnvægi á miðunum er að því leyti Bretum i hag, að þeir geta haldið áfram að veiða svipað aflamagn og áður. Þetta kostar þá að vísu mikið fé, en kostar okkur enn meira vegna örrar minnkunar mikilvægustu fiskistofnanna.
Eftir ásiglingarnar á Þór glötuðum við dýrmætu tækifæri til sóknar á öðrum væng taflborðsins. Okkur láðist að kalla sendiherra okkar heim frá London og að hætta um tíma samstarfinu i Atlantshafsbandalaginu á þeim forsendum, að við gætum ekki starfað þar með Bretum.
Síðan þetta tækifæri rann út í sandinn eigum við ekki margra nýrra kosta völ. Við megum samt ekki staðna í taflmennskunni og láta sitja við þráskákina á miðunum. Við þurfum að finna nýjar leiðir til að magna óvissu og taugaveiklun Breta og veikja aðstöðu þeirra til samninga. Þegar í september í haust var hér í leiðara Dagblaðsins stungið upp á nýjum sóknarleik af þessu tagi.
Þessi leikur felst i því að senda Bretum reikning fyrir bæði lögleg og ólögleg afnot af auðlindum Íslandsmiða síðustu hundrað árin. Fyrir hin löglegu afnot mundum við krefjast auðlindaskatts og skaðabóta fyrir hin ólöglegu afnot.
Með þessu mundum við koma aftan að kenningum Breta um sögulegan rétt þeirra. Sögulegum rétti hlýtur að fylgja söguleg ábyrgð. Aflatölur og tölur um stofnstærð fyrir síðustu áratugi sýna ljóslega, að Bretar eiga verulegan þátt í hnignun mikilvægustu fiskistofnanna á Íslandsmiðum.
Við ættum án sérstakrar lögfræðilegrar athugunar að geta slegið fram kröfu um samanlagðan auðlindaskatt og skaðabætur upp á 1000 milljarða íslenzkra króna. Jafnframt væri unnt að gera lauslega hagfræðilega og fiskifræðilega athugun á því, hvort þessi upphæð stæðist og hver væri hin rétta krónutala. Um leið væri unnt að hefja lögfræðilega athugun á því, hvernig bezt væri að fylgja málinu eftir.
Að sjálfsögðu munu Bretar segja slíka kröfu algerlega ómerka. Þeir verða samt ekki vissir í sinni sök. Óhjákvæmilegt er, að uggur læðist að þeim. Þeir munu þurfa að meta gildi kröfunnar. Og þeir munu þurfa að horfast í augu við harðar tölur um mat okkar á skaða þeim, sem þeir hafa valdið okkur.
Ekki er það heldur ónýtt gagnvart umheiminum að geta lagt fram tölur um skaðann. Ýmsar þjóðir, sem heimsvaldastefna Breta á liðnum öldum hefur skaðað, mundu taka eftir þeim og draga af þeim lærdóm. Það gæti linað afstöðu Breta gagnvart okkur, ef þeir sæju fram á sömu hættu úr mörgum öðrum áttum.
Við getum á þessu stigi ekki vitað, hvort þessi leikur verður aðeins millispil i þráskákinni eða vinningsleikur. En hann kostar okkur ekkert og er örugglega ekki afleikur.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið