Leiksýningu aflýst.

Greinar

Þegar þessi leiðari var í undirbúningi, leit út fyrir, að ríkisstjórnin mundi setja bráðabirgðalög um vísitöluþak við 400 þúsund króna mánaðarlaun. Vandi leiðarahöfundar virtist helzt sá, að lögin kynnu að líta dagsins ljós eftir samningu leiðarans, en fyrir birtingu hans.

Þá virtist tryggt, að bráðabirgðalögin yrðu í síðasta lagi sett á morgun, fimmtudag. Það er síðasti dagur mánaðarins og síðustu forröð til að setja lög, sem ekki ættu að verka aftur á bak. Og þrátt fyrir misbresti sína eru stjórnmálamenn enn feimnir við afturvirk lög.

Vísitöluþak felst í því, að hinir hæst launuðu fá ekki sömu prósentuhækkun og aðrir, heldur sömu krónuhækkun. Sé þak til dæmis sett við 400 þúsund króna mánaðarlaun, þegar vísitala á að hækka um 10%, fá allir þeir, sem hærri laun hafa, nákvæmlega 40 þúsund króna hækkun.

Hugsunin að baki vísitöluþaka er sú, að á erfiðum tímum sé ekki sanngjarnt, að flugstjórinn fái fimm sinnum fleiri krónur í vísitöluhækkun en verkamaðurinn fær. Þannig stefna endurtekin vísitöluþök að auknum launajöfnuði í þjóðfélaginu. Þetta finnst mörgum falleg stefna.

Gallinn er bara sá, að þessi vísitöluþök virðast í raun ekki hafa nein áhrif. Á síðustu árum hafa verið sett ótal vísitöluþök. Samt hefur launamismunur aukizt í þjóðfélaginu á sama tíma. Hálaunamennirnir hafa sitt fram, fyrst með launaskriði og síðan í kjarasamningum.

Stjórnvöldum hefur ekki tekizt að stytta launastigann. Að baki mismunarins virðast liggja einhver efnahagsleg náttúruöfl, sem ríkisstjórnir ráða ekki við, þótt þær séu allar af vilja gerðar. Og reynslan hefur kennt stjórnmálamönnunum að sætta sig við þessi náttúruöfl.

Í ljósi þessa verður að líta á það sem markleysu, þegar ráðherrar segjast ætla að setja nýtt vísitöluþak. Þeir eru bara að sýnast. Þeir telja, að almenningur muni halda, að þeir séu að efla jöfnuð í þjóðfélaginu. Þeir telja sig stuðla á þann hátt að vinnufriði.

En nú hefur Ólafur Jóhannesson gripið í taumana. Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson og Magnús Magnússon virðast ekki eiga að fá að sýnast fyrir lýðnum. Kannski telur Ólafur, að látbragðsleikir vísitöluþaka séu hættir að hafa áhrif. Og það er raunar staðreynd.

Röksemd Ólafs er þó önnur og einkar einföld. Sem stjórnarskrárfræðingur segir hann, að bráðabirgðalög um vísitöluþak standist tæpast. Réttur til setningar bráðabirgðalaga sé neyðarréttur til notkunar í örlagamálum á örlagastundum. Ómerkileg vísitöluþök flokkist ekki svo.

Röksemd Ólafs er verðug lexía bráðabirgðalagaglöðum stjórnmálamönnum. Ráðherrarnir voru farnir að líta á alþingi sem vandræðagemling, sem leysa bæri upp, svo að unnt væri að stjórna í friði með tilskipunum. Rétt eins og fyrir daga lýðræðisins.

Að undanförnu hafa þingmenn Alþýðuflokksins hvað eftir annað lagt áherzlu á, að Magnús Magnússon hafi enga heimild þeirra til að samþykkja nein bráðabirgðalög. Á meðan hefur Magnús beðið í óþreyju eftir tilskipunarvaldinu og segist hafa fengið nauðsynlegar heimildir í síma!

Í þessu blaði hefur stundum verið kvartað um, að Ólafur Jóhannesson umgengist ekki lög og stjórnarskrá með nægilegri virðingu. En í þetta sinn hefur hann einmitt staðið vörð um leikreglur lýðræðisins. Honum er því ekki alls varnað.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið