Stjórnmálamenn reyna gjarna að rækta í hugum kjósenda sinna þá ímynd af sér, að þar séu hvítir riddarar og krossfarar á ferð. Þeir séu alvitrir landsfeður, barmafullir föðurlandsástar og haldnir heilagri reiði út af öllu því, sem miður fer í þjóðfélaginu.
Þegar gægzt er undir þessa skarlatsskikkju, kemur oft önnur mynd í ljós. Þar sjáum við stjórnmálin sem baráttu um völd og aðstóðu, sem baráttu um fjármuni og bitlinga hins opinhera. Við sjáum skammsýna lýðskrumara og kaldrifjaða mafíumenn.
Hin frjálsu bandarísku dagblöð hafa leyft þjóð sinni að gægjast undir skarlatsskikkjuna og skoða stjórnmálaklíkurnar í hlutverki ræningjaflokka. Í öllum öðrum löndum heims er ástandið á svipaða lund, en fjðlmiðlarnir hafa ekki staðið sig eins vel og í Bandaríkjunum.
Á síðustu árum hafa magnazt jarðhræringar í íslenzkum fjölmiðlum, einkum eftir tilkomu Dagblaðsins í fyrrahaust. Í vaxandi mæli eru grafin upp mistök valdamanna, ósannindi þeirra og valdníðsla. Þjóðin þarf á þessum upplýsingum að halda til þess að verða raunsærri í mati sínu á stjórnmálum, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum.
ÓlafurJóhannesson sagði nýlega, að fjðlmiðlar væru að grafa undan lýðræðinu og koma óorði á stjórnmálin. Það er gömul saga, að sögumönnum er kennt um óþægilegar staðreyndir. Það eru stjórnmálamennirnir sjálfir, scm hafa grafið undan lýðræðinu og komið óorði á stjórnmálin.
Ólafur er sjálfur með traustari og virtari stjórnmálamönnum hér á landi. Hann er að vísu ekki neinn alhvítur riddari. Hann er til dæmis sérfræðingur í að skipa framsóknarmenn sem sýslumenn og bæjarfógeta. Og hann flækti sig nýlega í rangfærslum um framgöngu Landhelgisgæzlunnar eftir ákvörðunina um viðræðurnar í London.
Þetta eru samt smámunir í samanburði við marga aðra stjórnmálamenn fyrr og síðar. Ólafur hefur hins vcgar verið óheppinn að tvennu leyti. Í fyrsta lagi hefur hann ruglað saman Vilmundi Gylfasyni og Vísismafíunni og það með heldur óhefluðu orðbragði.
Í öðru lagi hefur Ólafur stuðzt of mikið við menn á borð við Kristin Finnbogason. Forustumenn Framsóknarflokksins hafa vcrið of fegnir því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjármálum flokks og blaðs og hafa lokað augunum fyrir aðferðum þeim, sem beitt hefur verið í því skyni. Nú eru að koma upp á borðið bögglar þeir, sem fylgja skammrifinu.
Ólafur kemur væntanlega til með að rétta við eftir áfall undanfarinna daga, enda er hann enginn persónugervingur þess, sem miður fer í garði stjórnmálamanna. Hins vegar er nauðsynlegt, að bæði hann og aðrir stjórnmálamenn átti sig á því, sem er heilbrigt í þróun fjölmiðla á undanförnum mánuðum og árum.
Ef þessi þróun heldur áfram, fara kjósendur smám saman að líta raunsærri augum á stjórnmálamenn, stjórnmálaklíkur og stjórnmálaflokka. Skarlatsskikkjan fellur og stjórnmálamcnnirnir koma í ljós, jafnbreyzkir og aðrir menn. Flestir stiórnmálamenn munu smám saman læra að meta ástandið réttilega og fara að leggja áherzlu á að bæta siðfræði sína.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið