Kosningabaráttan er á leiðarenda í þessari lotu. Síðustu áróðursgusurnar munu birtast í flokkspólitísku blöðunum í fyrramálið. Þá geta kjósendur farið að anda léttar, opna gluggana og hleypa óloftinu út.
Lesendur áróðursdagblaðanna eru samt ekki búnir að bíta úr nálinni á þessu sumri. Eftir nokkurra daga hlé í næstu viku hefst moldviðri að nýju, hálfu magnaðra en fyrr. Aftur munu dagfarsprúðir kommissarar umturnast og láta tilganginn helga meðalið.
Þunnildin hafa yfirgnæft í kosningabaráttunni síðustu tvær vikurnar, allt frá Karli Marx borgarstjóraefni yfir í geiturnar í Hljómskálagarðinum. Það liggur við, að fjölskyldumyndirnar af frambjóðendum og spariviðtölin við þá séu kærkomin hvíld frá þvaðrinu.
Dagblaðið hefur staðið utan við þessa hríð. Það hefur hvorki leynt né ljóst mælt með neinum frambjóðendum né stjórnmálaflokkum. Á því verður engin breyting nú á síðasta útkomudegi fyrir kosningar. En Dagblaðið hefur á annan hátt tekið þátt í undirbúningi kosninganna.
Blaðamenn Dagblaðsins hafa heimsótt alla kaupstaðina og flest kauptúnin, þar sem kosið verður á morgun. Þeir hafa rætt við efstu menn framboðslistanna og birt umsagnir þeirra um stöðu og framtíð málanna í byggðarlögum þeirra.
Svör einstakra manna höfðu af eðlilegum ástæðum tilhneigingu til að vera einhliða. En myndin varð sannari og fyllri, þegar svör frá öllum listum hvers byggðarlags voru komin á einn stað í blaðinu, auk stuttra umsagna fólks á götunni.
Á þennan hátt hefur Dagblaðið reynt að draga saman í aðgengilegt form málefnin og kostina, sem kjósendur standa andspænis, hver í sínu sveitarfélagi. Dagblaðið hefur orðið vart við, að heimamenn kunna að meta þessa þjónustu, ekki sízt vegna óhlutdrægninnar, sem hefur einkennt hana.
Hitt er svo annað mál, hvort lesendum er slægur í skoðanakönnun Dagblaðsins um úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Hún átti að sýna ýmsa strauma, sem skipta máli í fylgi flokkanna. Slíkar upplýsingar geta skýrt málin og komið á þann hátt að gagni.
Samt gerði blaðið þetta með hálfum huga. Ljóst er, að niðurstöðurnar verða vegnar og metnar, þegar atkvæði hafa verið talin. Þá kemur í ljós, hvort tilraunin er fremur heppnuð eða misheppnuð. Sú útkoma hlýtur að ráða framhaldinu.
Dagblaðið hefur birt leiðara með ýmsum ábendingum, sem kjósendur geta haft í huga, ef þeir vilja, þegar að kjörklefanum kemur. Þessi ráð hafa hvorki verið ætluð né reynzt í þágu einstakra manna né flokka.
Í öðrum leiðurum hefur Dagblaðið svo gagnrýnt harðlega kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna allra. Enda verður seint of oft kveðin sú vísa, að menntað þjóðfélag á ofanverðum áttunda tug aldarinnar á skilið vandaðri kosningabaráttu en við höfum séð að undanförnu.
Dagblaðið klykkir svo út í dag með 16 síðna kosningahandbók í þágu hinna fjölmörgu Íslendinga, sem ánægju hafa af því að vaka yfir talningu og skrá nýjustu tölur, jafnóðum og þær heyrast, svo og að velta jafnóðum fyrir sér sviptingunum, sem tölurnar sýna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið