Talsmenn bændasamtakanna halda því fast fram, að niðurgreiðslur á verði landbúnaðarafurða séu ekki gerðar í þágu bænda, heldur tæki í baráttunni gegn verðbólgu. Ef þeir meina það, sem þeir segja, ætti af þeirra hálfu ekkert að vera því til fyrirstöðu, að niðurgreiðslurnar yrðu lagðar niður og hinir fjóru milljarðar notaðir á skynsamlegri hátt.
Neytendur kysu sjálfir að fá niðurgreiðslumilljarðana beint í vasann til frjálsrar ráðstöfunar. Að slíku yrði engin smáræðis búbót eða um 20.000 krónur í peningum á hvert mannsbarn á ári. Fimm manna fjölskyldu mundi muna um minna en að fá 100.000 krónur á ári til baka frá skattakerfinu.
Slíkri breytingu fylgdi einnig sá kostur, að íslenzkar landbúnaðarvörur yrðu seldar yfir búðarborðið á réttu kostnaðarverði. Almenningur gerði sér þá grein fyrir, hve mikið þessar vörur kosta í raun og veru og hve miklu er fórnað til að halda uppi framleiðslunni.
Fyrir viku voru hér birtar tölur, sem sýndu, að bandarískur landbúnaður er fimm sinnum framleiðnari en íslenzkur og að danskur landbúnaður er tvisvar til þrisvar sinnum framleiðnari en íslenzkur. Þessi munur er ekki óeðlilegur, þegar tekið er tillit til ákaflegra óhagstæðra skilyrða til landbúnaðar hér á landi.
Ef smám saman væri unnt að beina fjármagni og vinnuafli frá landbúnaði til hagkvæmari atvinnuvega, væri unnt að stórauka gjaldeyristekjur og hefja smám saman innflutning á tiltölulega ódýrum landbúnaðarafurðum, sem mundu lækka vöruverð í landinu.
Samkvæmt skráningu danska landbúnaðarráðsins er útflutningsverð á kíló, reiknað í heilum skrokkum, 214 íslenskar krónur nautakjötið, 168 krónur svínakjötið og 96 krónur kjúklingarnir, allt miðað við fyrsta flokk. Hér kostar kílóið í heilum skrokkum hvorki meira né minna en 365 krónur í dilkakjötinu og 595 krónur í kjúklingum. Þótt bætt sé við dönsku verðin eðlilegum flutningskostnaði og álagningu í heildsölu og smásölu, verður danska kjötið mun ódýrara en íslenzka kjötið.
Samkvæmt sömu skráningu danska landbúnaðarráðsins er útflutningsverð á 45% osti 214 krónur íslenzkar, meðan ostur kostar hér í smá. sölu 535 krónur óniðurgreiddur og 445 krónur niðurgreiddur. Danska smjörið kostar 299 krónur, meðan íslenzka smjörið kostar 840 krónur óniðurgreitt og 463 krónur niðurgreitt. Og dönsku eggin kosta 101 krónur kílóið, meðan íslenzku eggin kosta 470 krónur. Því má ljóst vera, að dönsku vörurnar mundu, að viðbættum innflutningskostnaði og álagningu, ekki aðeins spara niðurgreiðslurnar,heldur lækka vöruverðið þar á ofan.
Þessar tölur eru allar úr opinberum skýrslum danska landbúnaðarráðsins og íslenzka framleiðsluráðsins. Þær sýna greinilega stöðu okkar í landbúnaðarmálum og eru því mikilvægar. Þær ættu að geta verið veganesti nýrrar stefnu í landbúnaðarmálum, er drægi smám saman úr verstu ókostum ríkjandi kerfis og bætti lífskjör þjóðarinnar án vinnudeilna og verkfalla.
Jónas Kristjánsson
Vísir