Leið Magnúsar er of dýr.

Greinar

Svo virðist sem spilling Steingríms Hermannssonar sem dómsmálaráð- herra sé ekki nema helmingurinn af spillingu forvera hans, Ólafs Jóhannessonar. Steingrímur skipar ekki flokkspólitíska gæðinga sína í æðstu embætti nema í annað hvert sinn.

Steingrímur hlaut almennt ámæli fyrir að taka í embætti borgarfógeta í Reykjavik flokksbróður sinn, Jón Skaftason, fyrrverandi alþingismann, fram yfir marga góða og gegna embættismenn dómskerfisins.

Nokkru siðar, þegar Steingrímur veitti embætti bæjarfógeta í Kópavogi, gekk hann framhjá nokkrum framsóknarmönnum og valdi þann sýslumann, sem mesta starfsreynslu hafði, Ásgeir Pétursson í Borgarnesi.

Hin harða hríð, sem gerð hefur verið að ráðherrum fyrir pólitískar stöðuveitingar, virðist byrjuð að hafa nokkur áhrif. Eitthvert samvizkubit hefur Steingrímur haft af fyrri veitingunni úr því að hann hagaði sér rétt í hinni síðari.

Auðvitað er ekki auðvelt að víkja nokkuð af rótgrónum spillingarvegi ráðherravalds á Íslandi. Ef ráðherra velur ekki þá menn, sem næst embættum standa, verður allt vitlaust í fjölmiðlum. Og ef hann velur ekki flokksbræður sina, þá ærast gæðingarnir.

Magnús Magnússon heilbrigðisráðherra hefur fundið upp spánnýja aðferð til að friða báða aðila í senn. Hann skipar bara báða í embættið. Hann skipar bæði þann, sem hæfastur er, og hinn sem á hjá ráðherranum pólitíska inneign.

Fremur ótrúlegt er samt, að lausn Magnúsar verði að almennri reglu í spillingarkerfi veitingavaldsins. Til þess er hún of dýr. Við getum ímyndað okkur, hversu dýrt embættismannakerfið væri nú, ef lengi hefðu tveir menn verið ráðnir í hvert starf.

Magnús átti kost á því að skipa í eina stöðu vegna afleysinga á skurðdeild Landspítalans. Hann kaus að skipa tvo umsækjenda í þrjá fjórðu hluta stöðu hvorn eða í eina og hálfa stöðu samtals. Auðvitað kostar hálfa staðan töluvert, því að læknar eru ekki láglaunamenn.

Þetta gerir Magnús skömmu eftir að rekstur Landspítalans og fleiri ríkisspítala hafði nærri stöðvazt vegna greiðsluerfiðleika. Rafmagnsveitan ætlaði að loka fyrir rafmagn og framkvæmdastjórn spítalanna reyndi að klípa 25 mínútna yfirvinnu af skúringakonum.

Fjárhag spítalanna var naumlega bjargað fyrir horn. Í framhaldi af því er verið að skipuleggja uppsagnir og stöðvun nýrra ráðninga, lokun sjúkradeilda um takmarkaðan tíma og annan þann samdrátt, er geti fleytt spítölunum út þetta ár.

Ekki er sennilegt, að Tómasi Árnasyni fjármálaráðherra finnist skipunaraðferð Magnúsar mjög sniðug. Og ekki er sennilegt, að spítalarnir og raunar aðrar eyðslustofnanir kerfisins taki mikið mark á sparnaðarhjali, þegar ráðherra leysir vandamál sín með þessum hætti.

Magnús lenti í súpunni sem Vestmannaeyingur fyrir að hafa fengið lækni til bráðabirgða út í Eyjar með loforði um síðara gull og græna skóga. Þá skuld taldi hann sig þurfa að gjalda nú um leið og hann skipaði líka hinn sem næstur starfi stóð.

Satt að segja er lausn Steingríms skárri en lausn Magnúsar. Síðari lausnin er óframkvæmanleg nema sem sirkusatriði. Fyrri lausnin er þó ekki nema hálf spilling. Og hún gefur alténd vonir um síðari rýrnun niður í fjórðung og jafnvel minna með vaxandi innreið siðmenningar í stjórnmálin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið