Látið kné fylgja kviði

Greinar

Fyrir nokkrum árum kom það stöku sinnum fyrir, að útsölum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins væri skyndilega lokað daginn fyrir stórhátíðir. Þá hafði ríkisstjórnin efni á fyrir hönd ríkissjóðs að hafa “vit” fyrir landsmönnum.

Nú er öldin önnur. Ríkissjóður er ekki lengur til nema sem fínt nafn á gati. Ríkisstjórnin er orðin svo sólgin í fé í þetta gat, að hún hefur bæði efnt til kvöld- og helgarsölu á brennivíni. Er það framlag hennar til jólahaldsins.

Þetta er ekki ákvörðun verzlunarinnar, heldur fjármálaráðuneytisins. Það ákvað, að útsölurnar í Reykjavík skyldu vera opnar til klukkan tíu á föstudagskvöld og til hádegis á laugardag.

Ljótt er, að ríkissjóður skuli vera orðinn slíkur áfengissjúklingur, að ríkið stendur og fellur með brennivínsneyzlu landsmanna. En það er einmitt kjarni málsins, að ríkið lifir á brennivínssölu. Bregðist hún, er vá fyrir dyrum báknsins.

Síðasta ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn hafa höggvið í hinn gamalkunna knérunn að hækka verð á víni og áfengi til að halda ríkissjóði á floti. Á síðustu tólf mánuðum hefur verðið hækkað um 60% eða töluvert umfram verðbólgu.

Sú skoðun var almenn, að engu máli skipti, hvaða verð væri á víni og áfengi. Menn mundu alltaf neyðast til að kaupa það í sama mæli og áður. Þetta hafa landsfeður reynt að notfæra sér samkvæmt reglunni, að græða beri á veiklyndi manna.

Þessi skoðun sprakk í loft upp, þegar vín og áfengi hækkaði í verði í september. Salan minnkaði verulega og hefur síðan haldizt minni. Fólk neitar sér um þessar vörur á einokunarverði ríkisins.

Það ánægjulega hefur gerzt, að hinn gróðafíkni ríkissjóður hefur ekki fengið eina einustu krónu úr hækkun víns og áfengis í september. Hann fær bara þær upphæðir, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir réttu ári, en engan aukagróða af síðustu hækkun ársins.

Auðvitað er þetta ekki aðeins að þakka samdrætti í drykkju landsmanna. Aukin bruggun hefur gert sívaxandi fjölda manna kleift að hafna viðskiptum við áfengisverzlunina að mestu eða öllu.

Og ríkið er bjargarlaust gegn bruggurunum. Þar duga engin boð né bönn. Þar duga ekki gerefnalögregla, gerefnadómstólar né gerhundar. Ríkið hefur einfaldlega prísað sig úr markaðinum og getur ekki kúgað mörg þúsund keppinauta til hlýðni.

En bruggið er heldur ekki eina ástæðan fyrir ósigri ríkisvaldsins. Bruggun tekur langan tíma. Menn mættu ekki septemberhækkuninni með því að byrja að drekka brugg, heldur með því að leggja í og neita sér um vín og áfengi á meðan.

Opnun áfengisverzlana í kvöld og í fyrramálið er sönnun þess, að fyrrverandi viðskiptamenn hafa tekið ríkisvaldið á taugum. Landsfeðurnir eru orðnir hamslausir af peningaleysi. Næst dettur þeim líklega í hug að hafa opið á aðfangadagskvöld.

Við slíkar aðstæður geta menn látið kné fylgja kviði með því að neita sér um eða draga úr neyzlu áfengis um jól og nýár eða jafnvel með því að færa neyzluna yfir í léttvín, sem ríkið græðir minna á.

Raunar geta bindindismenn, vínmenn og drykkjumenn tekið saman höndum um að veita ríkisvaldinu ærlega ráðningu fyrir að reyna að magna gróða sinn af drykkjufýsn almennings.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið