Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík ætti að þiggja ráð Birgis Ísleifs Gunnarssonar og láta borgarbúa greiða atkvæði um, hvort borgin skuli hálfgefa ríkinu Landsvirkjun. Skellur í slíkri atkvæðagreiðslu er nefnilega ónotaminni en skellur í næstu borgarstjórnarkosningum.
Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík er ekki settur til valda til að gæta þjóðarhags, heldur borgarhags. Um þann hag verður kosið í næstu borgarstjórnarkosningum. Og þá kemst Birgir Ísleifur til varanlegra valda, ef svo fer, sem nú horfir.
Þjóðhagslega séð er ágætt, að Landsvirkjun verði raunveruleg landsvirkjun og taki að sér orkubúskap þjóðarinnar. Landsvirkjun er öflugt og vel rekið fyrirtæki, sem mundi virkja hagkvæmar en ríkið hefur gert.
Landsvirkjun mundi tæpast reisa orkuver við vatnslitlar ár til að útvega kjósendum atvinnu. Og Landsvirkjun er sá aðili, sem helzt gæti gert gott úr fjárhættuspilinu við Kröflu. Það yrði því fengur fyrir þjóðina að eignast Landsvirkjun.
Nú eru eignarhlutar jafnir. Ríkið á helming og borgin helming. Upphaflega átti borgin þetta vildarfyrirtæki ein og kallaði Sogsvirkjun. Vandséð er, að Reykvíkingum henti að gefa nú eftir helmingshlutinn.
Landsvirkjun er eins og Hitaveita Reykjavíkur lýsandi tákn um, að Reykjavík var vel stjórnað, þrátt fyrir hefðbundinn áratuga meirihluta. Þessar tvær stofnanir voru dæmigerður afrakstur forsjálla og djarfra borgarfeðra.
Hinn nýi meirihluti virðist ætla að brjóta þessa fortíð niður. Hann virðist ætla að gefa eftir helminginn í Landsvirkjun. Og hann virðist ætla að gefa ríkinu gufuaflsréttinn á Nesjavöllum. Þar á ofan virðist hann ætla að kalla rafmagnsskömmtun yfir Reykvíkinga á komandi vetri.
Egill Skúli Ingibergsson borgarstjóri var ekki með réttu ráði, þegar hann samdi við Hjörleif Guttormsson orkuráðherra um þetta endemismál. Sem borgarstjóri átti hann að gæta borgarhags og það hefur honum mistekizt herfilega.
Borgaryfirvöld mega ekki undir neinum kringumstæðum gefa eftir helminginn í Landsvirkjun. Borgaryfirvöld mega ekki undir neinum kringumstæðum gefa eftir réttinn til fimm megawatta orkuvera og stærri. Borgaryfirvöld mega ekki undir neinum kringumstæðum baka borgarbúum hættu á rafmagnsskömmtun á komandi vetri.
Í fimmtíu ár stjórnaði Sjálfstæðisflokkurinn Reykjavík. Sú stjórn lukkaðist í stórum dráttum vel, þrátt fyrir háan aldur. Nú ætlar hinn nýi meirihluti að tryggja Sjálfstæðisflokknum önnur fimmtíu ár, að loknu þessu kjörtímabili. Kannski er það Landsvirkjunar virði.
Yfirboðurum Egils Skúla í borgarstjórn ætti að verða þetta ljóst, ef þeir gæfu sér tíma til að hugleiða framtíðina. Þeir eiga sér þá aðeins framtíð í valdastóli, að þeir átti sig á, að hagsmunir Reykvíkinga voru fyrir borð bornir í samningnum við ríkið um Landsvirkjun.
Sá, sem á helming í svona góðri eign, á ekki að vera á flæðiskeri staddur í samningum um hana. Hann á að geta haldið sínum helmingi, þótt eignaraðilum fjölgi. Það var ríkið, sem vildi fá Akureyri inn og gat látið hana hafa af sínum eignarhluta.
Sá, sem á helming í svona góðri eign, á ekki að þurfa að óttast rafmagnsskömmtun á næsta vetri. Hann á að geta samið um forgang að rafmagni. Það var ríkið, sem þurfti endilega að útvega eignaraðila handa Kröflu. Sá vandi kemur Reykjavík ekkert við.
Hinir nýju ráðamenn Reykjavíkur hafa svo sannarlega gert sig að fíflum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið