Landstjórinn er vaknaður

Greinar

Guðfaðir ríkisstjórnarinnar, Guðmundur J. Guðmundsson, er stundum kallaður landstjórinn vegna þeirrar áráttu hans að vilja ráða því, hvaða ríkisstjórnir hafi vinnufrið.

Í framkvæmd byggist áhugi landstjórans á kjarabótum verkamanna eingöngu á því, hvort Alþýðubandalagið er í ríkisstjórn eða ekki. Í hans augum eru kjarabætur ómerkari en flokkurinn.

Þegar Guðmundur kom á fót þeirri rikisstjórn, sem nú er að syngja sitt síðasta, var kaupmátturinn 119 stig. Hann er núna kominn niður í 109 stig og fer í næsta mánuði niður í 105 stig.

Samtals eru þetta 12% rýrnun lífskjara almennings á hálfu öðru ári. Slík rýrnun á svo skömmum tíma er auðvitað mjög tilfinnanleg, einkum þeim, sem ekki höfðu af neinum lúxus að taka.

Allan þennan tíma hefur landstjórinn haft mjög hægt um sig. Hann hefur mildilegast fallizt á, að kjarasamningar séu ekki í heiðri hafðir. Þessu hefur fólk orðið að fórna fyrir stjórnarsetu Alþýðubandalagsins.

Nú eru nokkrar horfur á, að Alþýðubandalagið verði utan stjórnar næstu misseri. Þess vegna má búast við, að Guðmundur fái nú aftur feiknarlegan áhuga á, að gamlir samningar verði í gildi.

Á þriðjudag sagði landstjórinn einmitt, að fólk þyrfti ekki að óttaðst svartnætti, þótt hægri sinnaðri stjórn tæki við. Hann mundi gæta sinna.

Guðmundur hefur engan áhuga á því lýðræði, sem felst í því, er kjósendur ákveða í kosningum, hvernig völd færist milli stjórnmálaflokka. Hans hlutverk er bara að gæta hagsmuna Alþýðubandalagsins.

Í því tafli landstjórans er verkafólk aðeins peð, er skiptir litlu sem engu máli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið