Stórkostleg landhreinsun er orðin að veruleika í dag. Brezku togararnir eru farnir úr ísIenzkri fiskveiðilögsögu, vonandi í síðasta skipti. Sigurinn er unninn eftir langa mæðu. Nú þurfa ráðamenn þjóðarinnar einungis að gæta sín á að láta ekki gabba sig út í neina nýja samninga um undanþágur til erlendra veiða á Íslandsmiðum.
Bretar eiga engra kosta völ. Þeir geta ekki beitt herskipum sínum. Þeir hafa enga sjálfstæða samningaaðstöðu, því að Efnahagsbandalagið fer með málið fyrir þeirra hönd. Og þeir voru búnir að skrifa undir undanþágusamning, sem veitti Íslendingum einhliða heimild til að ákveða tilhögun fiskveiða á miðum sínum.
Þetta ákvæði í undanþágusamningnum var mikilvægasta atriði hans. Það olli því, að Dagblaðið snerist á síðustu stund á sveif með samningi við Breta, þótt blaðið hefði allt fram að því verið ákaflega andvígt slíkum samningi. Andstaðan byggðist einmitt á því, að annars vegar væri aflamagn undanþáganna of hátt og að hins vegar væri ekki ljóst, hvað tæki við að samningstíma liðnum.
Norðmönnum tókst sem sáttasemjurum á síðustu stundu að fá inn í samninginn ákvæði um einhliða fullveldi Íslendinga á þessu sviði. Áður hafði hvað eftir annað orðið ljóst, að ríkisstjórn okkar, eða að minnsta kosti talsmenn hennar gátu sætt sig við minna. Gífurlegur þrýstingur að heiman olli því hins vegar, að ekki náðist samstaða í ríkisstjórninni um fyrri og óhagstæðari samningsdrög.
Á þeim tíma grunuðu margir ríkisstjórnina um linkind í landhelgismálinu og höfðu til þess ærnar ástæður. Enn gerist það nú, að menn gruna ríkisstjórnina um linkind og ekki að ástæðulausu. Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur lýst frati á skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um nauðsynlega takmörkun þorskveiða. Og sami ráðherra hefur margoft fjallað um mikilvægi síldveiða í Norðursjó og friðunaraðgerða Efnahagsbandalagsins við Grænland. Endurómar hann hliðstæðar skoðanir, sem Morgunblaðið hefur sett fram.
Til viðbótar við þessar grunsemdir koma svo fréttirnar af einkennilegri bjartsýni Efnahagsbandalagsins og Breta á endurnýjaðar undanþágur í einhverri mynd um áramót eða upp úr þeim. Það liggur í loftinu, að Gundelach, framkvæmdastjóri hjá bandalaginu, telji sig hafa fengið einhver vilyrði fyrir slíkum undanþágum.
Við skulum vona, að allt þetta sé á misskilningi byggt og að ríkisstjórnin standi eins og klettur úr hafinu gegn hvers kyns undanþágum. Við höfum reynslu af því, að við getum þolað löndunarbann af hálfu Breta. Og við höfum reynslu af því, að við getum þolað tollaofsóknir af hálfu Efnahagsbandalagsins, úr því að við þoldum þær fram á mitt þetta ár.
Allur þorri Íslendinga telur fráleitt að semja við Efnahagsbandalagið um undanþágur, hvað sem líður síldveiðum í Norðursjó og karfaveiðum við Grænland og hvort sem við verðum beittir ofbeldi eða ekki. Ef ríkisstjórnin áttar sig á þessu almenningsáliti, er væntanlega ástæðulaust að vera með efasemdir í hennar garð. Þjóðin mun alténd ekki þola neitt fráhvarf frá landhreinsun dagsins í dag.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið