Landbúnaðarlausnin

Greinar

Ýmsir hafa á undanförnum mánuðum lagt til, að sem fyrst yrði hætt að greiða niður landbúnaðarafurðir til neyzlu innanlands og uppbætur á útflutning þeirra, jafnframt því sem leyfður yrði innflutningur á landbúnaðarvörum.

Hagfræðilega er þetta laukrétt stefna. Hins vegar er þetta hægar sagt en gert. Ef sjálfsafgreiðsla landbúnaðarins af almannafé yrði lögð niður, mundu óseljanlegar birgðir íslenzkra afurða hrannast upp og bændur almennt flosna upp af jörðum sínum.

Félagslega séð eru slíkar aðgerðir bæði óverjandi og óframkvæmanlegar. Ef takast á að koma á jafnrétti milli landbúnaðar og arðbærari atvinnugreina, þarf miklu flóknari aðgerðir, sem taka munu langan tíma.

Þrýstihópi landbúnaðarins hefur með markvissri stefnu tekizt að byggja upp fyrirgreiðslukerfi, sem á ekki sinn líka í víðri veröld. Landbúnaðurinn hefur lagað sig að þessu þægilega gerviástandi og getur með engu móti lifað við eðlilegar aðstæður.

Þess vegna þarf að byrja á byrjuninni og hætta að hvetja til fjárfestingar í landbúnaði. Rætur meinsins liggja nefnilega í óhóflegri fjárfestingu í greininni. Leggja ber niður styrki til framkvæmda í hinum hefðbundna landbúnaði og hætta að veita honum lánafyrirgreiðslu umfram. aðra starfsemi.

Sumt af því fjármagni, sem með þessu mundi sparast, má nota til að hjálpa bændum til þess að fara í aðrar búgreinar, sem samkeppnishæfari eru eða eiga meiri framtíð fyrir sér. Má þar nefna ylrækt, fiskirækt og loðdýrarækt.

Einnig kemur til greina hrein grasrækt til framleiðslu á grasmjöli eða heykögglum, því að margt bendir til, að grasræktin sé minnst óhagkvæm af hinum hefðbundnu þáttum landhúnaðarins.

Annað af þessu fjármagni mætti beinlínis nota til að hjálpa bændum sem vilja bregða búi og koma sér fyrir í öðrum atvinnugreinum. Sú aðstoð gæti falizt í útvegun húsnæðis svo og greiðslu launa meðan á þátttöku í endurhæfingarnámskeiðum stendur.

Næsta skrefið gæti verið að breyta niðurgreiðslum landbúnaðarafurða í almennar fjölskyldubætur. Þetta mundi leiða til verulegrar minnkunar á neyzlu hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða, er neytendur sneru sér að ódýrari matvælum.

Unnt er að vega upp á móti tímabundinni offramleiðslu á mjólk með nýjum geymsluaðferðum, sem gera kleift að geyma hana mánuðum saman. Þessar aðferðir hafa þegar verið teknar í notkun hér. Þetta gæti komið í veg fyrir þörf á árstíðabundnum niðurgreiðslum á mjólk.

Síðan þyrfti að afnema útflutningsuppbæturnar og hvetja þannig landbúnaðinn til að haga framleiðslu sinni þannig, að hún verði öll seljanleg innanlands.

Loks þegar framleiðsla landbúnaðarins hefur minnkað nógu mikið, er unnt að hefja innflutning erlendra landbúnaðarafurða, einkum þeirra sem dýrastar eru innanlands, svo sem smjörs og osta.

Þannig er á löngum tíma unnt að leysa málið þannig, að bændum fækki ört, en þeir, sem eftir sitja, hafi bærilegar tekjur. Jafnframt mundu neytendur fá kost á ódýrum og fjölbreyttum landbúnaðarvörum erlendis frá. Og loks mundi þjóðin árlega spara stórfé til eflingar arðbærra atvinnugreina í landinu.

Jónas Kristjánsson

Vísir