Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur staðfest fréttir Dagblaðsins af fölsuðum dagstimplum á niðurlögðum sjólaxi. Fyrri hluta ágúst var dreift til verzlana birgðum af sjólaxdósum, sem merktar voru framleiðsludeginum 30. ágúst.
Svona fölsun er raunar dálítið fyndin, því að hún byggist á, að enginn einasti neytandi, sem vöruna kaupir, hafi fyrir því að gá að dagsetningunni. Framleiðandinn verður að hafa þá bjargföstu sannfæringu, að allir viðskiptavinir hans séu aular.
Fyrirlitningin á neytendum kom einnig í ljós á öðru sviði. Á dósunum stóð, að innihaldið væri 170 grömm. Á lausum miða með þeim stóð svo, að sjólaxinn væri 75 grömm. Í rauninni var innihaldið af sjólaxi aðeins 53,2 grömm eða innan við þriðjung af skráðri nettóþyngd.
Framleiðsla og sala lagmetis hefur verið mjög til umræðu í sumar. Víða er þar pottur brotinn, svo sem dæmin sanna. Dagblaðið skýrði meðal annars frá framboði í verzlun á gaffalbitum úr sendingu, sem Sovétmenn höfðu hafnað.
Að beiðni Neytendasamtakanna kannaði Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gaffalbita, kavíar og sjólax frá þremur verksmiðjum. Öll sýnishornin reyndust ósöluhæf af ýmsum ástæðum.
Gaffalbitarnir voru súrir, enda of gamlir, auk þess sem merking þeirra var ekki í samræmi við reglur. Kavíarinn hafði óeðlilegan lit, var of gamall og ekki heldur merktur samkvæmt reglum. Í sjólaxinum var vottur af þráa, of mikið af rotvarnarefni og þar var merkingu áfátt.
Í sumar kærði Heilbrigðiseftirlit ríkisins verksmiðjurnar K. Jónsson, Arctic, Eldeyjarrækju og Sigló fyrir alvarleg brot á lögum og reglum um framleiðslu lagmetis. Og íslenzkir skattborgarar verða líklega að borga hundruð milljóna fyrir ósöluhæfa vöru, sem K. Jónsson setti á Rússlandsmarkað.
Núna síðast í ágúst skýrði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur frá athugun á niðursoðnu og niðurlögðu lagmeti í verzlunum Reykjavíkur. Af niðurlögðu vörunum reyndust 13% ekki vera söluhæf og af niðursoðnu vörunum reyndust 36% ekki vera söluhæf.
Þetta eru rosalega háar hlutfallstölur, sem benda til, að herða þurfi verulega eftirlit með framleiðslu og sölu lagmetis hér á landi. Þetta er afar viðkvæm matvara, sem ekki má framleiða af neinu alvöruleysi.
Rétt er að taka fram, að það voru ekki aðeins innlendir framleiðendur, sem reyndust brotlegir. Innfluttu lagmeti var líka ábótavant á ýmsum sviðum, sérstaklega í of miklum aukaefnum og of lélegri merkingu.
Þá er einnig rétt að taka fram, að sumir innlendir framleiðendur standa sig mjög vel á þessum sviðum. Vandamálið virðist einkum snúast um þær fjórar verksmiðjur, sem nefndar voru hér að framan.
Sumir hafa sagt til varnar, að kröfur Heilbrigðiseftirlitsins séu of harðar. Þeim fullyrðingum verður hér algerlega vísað á bug. Kröfurnar fara eftir lögum og reglum og eru ekkert annað en sjálfsagðar lágmarkskröfur.
Svo er það önnur spurning í landi gnægðar af ferskum fiski og frystihúsum, hvaða erindi fiskafurðir eiga lagðar eða soðnar í dósir. Er þetta ekki sumpart iðnaður búinn til af vanhæfum stjórnmálamönnum, sem ganga með í kollinum grillu svonefndrar “fullvinnslu” sjávarafurða?
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið