Jafnaðarflokksmaðurinn Helmut Schmidt, kanzlari Vestur-Þýzkalands, gerði nýlega efnahagsstefnu stjórnar sinnar að umtalsefni í blaðaviðtali. Hann sagði m.a.: “Þótt við forðumst verðlagseftirlit og kaupgjaldseftirlit, er verðbólgan minnst hjá okkur. Hagkerfi okkar á auðveldara með að samræmast markaðsöflunum en reglugerðum … Þetta segi ég sem jafnaðarflokksmaður … Því meira sem reglugerðum er beitt, þeim mun meiri verður skriffinnskan og hömlurnar á þróunarkrafti hagkerfisins.”
Það er von, að Þjóðverjum gangi vel í efnahagslífinu, þegar sjálfur kanzlari vinstri stjórnarinnar þar hefur þveröfugar skoðanir við hinn gamla landa sinn, Karl Marx. Það er von, að þeim gangi vel í efnahagslífinu, þegar vinstri stjórn rekur efnahagsstefnu, sem er álíka langt til hægri og stefna Sjálfstæðisflokksins hér á landi.
Hagkerfi Vestur-Þjóðverja hefur enn einu sinni sannað gæði sín á þessum tímum almenns efnahagsöngþveitis í Evrópu. Þótt þýzka markið hafi stöðugt verið að hækka í verði á undanförnum árum, er viðskiptajöfnuður landsins hagstæður um hvorki meira né minna en sem svarar um 1800 billjónum íslenzkra króna fyrstu sjö mánuði þessa árs. Með sama áframhaldi verða Bandaríkjamenn bráðum að fátæklingum í samanburði við Þjóðverja.
Grundvöllurinn að þýzka efnahagsundrinu var lagður fyrir um það bil aldarfjórðungi af Ludwig Erhard, þáverandi efnahagsráðherra og síðar kanzlara. Undirstöðuhugmynd hans var sú að rækta hreina hægri efnahagsstefnu og láta markaðsöflin ráða ferðinni en ekki reglugerðir hins opinbera. Þetta er hinn frægi “félagslegi markaðsbúskapur”, sem síðan hefur ríkt þar í landi.
Árangur þessarar stefnu varð svo undraverður, að vinstri menn þar í landi urðu smám saman að viðurkenna yfirburði hennar. Jafnaðarmannaflokkurinn losaði sig smám saman undan kredduoki Karls Marx og tók upp stefnu markaðsbúskapar. Árangurinn varð sá, að efnahagsundrið hélt áfram af fullum krafti, þegar jafnaðarmenn komust til valda, enda létu þeir stefnu Erhards haldast.
Þýzkir jafnaðarmenn mundu reka upp stór augu, ef þeir heyrðu efnahagskenningar þeirra flokka, sem hér á landi kenna sig við jafnaðarmennsku. Þeir mundu hrista höfuðið af meðaumkun, ef þeir heyrðu því haldið fram, að íslenzka verðlagseftirlitið væri neytendum í hag.
Þeir mundu telja íslenzka flokksbræður sína ekki vera með öllum mjalla, ef þeir heyrðu þá halda því fram, að efnahagslífið sé bezt rekið með Framkvæmdastofnunum og opinberri skipulagningu. Þannig mætti lengi telja.
Mikið væri ánægjulegt, ef íslenzkir stjórnmálamenn, einkum þeir, sem eru á vinstri vængnum, vildu nú leggja niður hina gömlu fordóma, sem hafa þrifizt hér í einangruninni. Mikið væri gott, ef ríkið vildi kosta stjórnmálamennina á námskeið í vestur-þýzka efnahagsráðuneytinu.
Þetta eru náttúrlega draumórar, sem hafa ekki hagnýtt gildi. En einhvern tíma hlýtur að koma að því, að íslenzkir stjórnmálamenn vaxa upp úr því að vilja ekki læra af reynslu annarra.
Jónas Kristjánsson
Vísir