Birting listans yfir 49 íslenzka umráðamenn gjaldeyris í Finansbanken í Danmörku er gott dæmi um, hvernig leyndardómsfullir hlutir verða hversdagslegir, þegar kastljósi fjölmiðla er beint að þeim. Ævintýralegar sögusagnir verða þá að víkja fyrir tiltölulega lítið spennandi staðreyndum.
Athyglisverðast við listann, sem Dagblaðið birti, og viðtölin við reikningshafana er, hversu mikið þar er af venjulegu fólki með venjulegt fé. Peningarnir hafa til dæmis orðið til við langdvalir erlendis, arfskipti og önnur fjölskyldumál. Þeir eru eðlilega fengnir, þótt ekki hafi verið farið að gjaldeyrisreglum í mörgum tilvikum við meðferð þeirra.
Eins og venjulega eru yfirvöld harmþrungin út af uppljóstrunum af þessu tagi. Þau telja, að almenningi komi ekki við, hvað þau hafa fyrir stafni. Ef þau fengju að ráða, mundi fólk lítið vita um atburði líðandi stundar. Það mundi vera óraunsætt og næmt fyrir leyndardómsfullum sögusögnum.
Sem betur fer er þagnarmúr yfirvalda oft rofinn eins og gerðist í þessu tilviki. Slíkar upplýsingar stuðla að raunsærri hugsun fólksins í landinu. Þær tempra ímyndunaraflið, sem ella gengi lausbeizlað. Í þessu felst einn helzti kostur frjálsra og óháðra fjölmiðla, sem knékrjúpa ekki fyrir yfirvöldunum.
Að sjálfsögðu eru ekki öll kurl komin til grafar, þótt þessi listi hafi verið birtur. Á hann vantar um það bil 27 nöfn umráðamanna reikninga í Finansbanken og svo auðvitað nöfn þeirra, sem áttu inni í öðrum dönskum bönkum.
Þó er athyglisvert, að listinn í Dagblaðinu er nákvæmlega hinn sami og Seðlabankinn sendi Rannsóknarlögreglu ríkisins hinn 6. marz síðastliðinn. Seðlabankinn hefur því sjálfur dregið frá nöfnin 27, hugsanlega vegna þess að þau hafi verið send skattrannsóknarstjóra.
Þannig má leiða getum að því, að litið sé mun alvarlegri augum á mál hinna 27 manna, sem ekki eru á listanum í Dagblaðinu og hjá rannsóknarlögreglunni. En því er líka haldið fram, að þar sé um að ræða þá, sem betur mega sín. Sú tilgáta er sennilega röng. Úr öllu því fengist skorið, ef sá listi læki einnig til fjölmiðla.
Því miður eru ekki miklar líkur á, að yfirvöld slaki á járnaganum gegn hugsanlegum leka af því tagi. Ímyndunarafl þjóðarinnar mun því áfram eiga sitt Heiðnaberg í Finansbankamálinu, þar sem sögusagnir geta gengið hring eftir hring án aðhalds staðreynda, birtra á prenti.
Inn í þá hringiðu dragast tugir nafna manna, sem ímyndunaraflið telur, að hugsanlega hafi aðstöðu til að safna erlendum gjaldeyri. Það er slík fréttamennska sjöunda dagblaðsins, – slúðursins, sem yfirvöld landsins eru svo natin við að rækta.
Birting nafnanna 49 og leynd nafnanna 27 er ágætt skóladæmi um muninn á opinskárri fjölmiðlun í prentuðu máli annars vegar og þjóðsöguburði hins talaða máls hins vegar. Hún sýnir, hversu nauðsynlegt er, að dagblöð komist óhikað að kjarna málsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið